Leiklistarsamband Íslands boðar til fréttamannafundar föstudaginn 16. maí á Stóra sviði Þjóðleikhússins. Fundurinn hefst kl. 16. Tilkynnt verður um hvaða sýningar og listamenn hljóta tilnefningar til Grímunnar – Íslensku leiklistarverðlaunanna árið 2008. Forseti Íslands Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, sem jafnframt er verndari Grímunnar, afhendir þeim listamönnum viðurkenningar er tilnefningar hljóta. Gríman – Íslensku leiklistarverðlaunin verða svo veitt við hátíðlega athöfn föstudaginn 13. júní í Þjóðleikhúsinu. Þetta verður í sjötta sinn sem Grímuhátíðin er haldin, en Gríman var fyrst veitt sumarið 2003 í Þjóðleikhúsinu. Hátíðin verður sýnd í beinni útsendingu Sjónvarpsins.
 
Alls komu 80 frumsýnd sviðsverk til álita til Grímunnar í ár og 13 frumflutt útvarpsverk. Samtals störfuðu um 1000 listamenn við þessi verk. Aldrei hafa fleiri sýningar komið til álita. Veitt verða verðlaun í sextán flokkum sviðslista en auk þess verða heiðursverðlaun Leiklistarsambands Íslands veitt þeim listamanni er þykir hafa skilað framúrskarandi ævistarfi í þágu sviðslista.
 
Leiklistarsamband Íslands, heildarsamtök sviðslista á Íslandi, stendur fyrir Grímunni sem einnig er uppskeruhátíð leiklistarinnar og haldin í lok hvers leikárs. Á hátíðinni eru sviðsverk og útvarpsverk verðlaunuð og listamönnum veittar viðurkenningar fyrir framúrskarandi árangur á sínu sviði.
 
Meðal markmiða Íslensku leiklistarverðlaunanna eru að auka fagmennsku og sérhæfingu innan sviðslista og stuðla að metnaðarfullum vinnubrögðum þeirra er starfa við sviðslistir með það að leiðarljósi að auka gildi, sýnileika og hróður sviðslista á Íslandi.
 
Frekari upplýsingar á http://griman.is
 

{mos_fb_discuss:3}