Síðastliðinn fimmtudag urðu tímamót í sögu Leikfélags Kópavogs þegar Unglingadeild félagsins frumsýndi Börn mánans eftir Michael Weller í leikstjórn Sigurþórs Alberts Heimissonar. Listin lætur ekki bíða eftir sér og það sannast í Kópavoginum þessa dagana. Þó smíði nýs leikhús Leikfélags Kópavogs hafi staðið yfir hefur Unglingadeild félagsins æft af fullum krafti undanfarnar vikur í hamarshöggum og sögunargargi innan um þéttull og krossviðarplötur. Afrakssturinn var frumsýndur í hráu leikhúsinu síðastliðinn fimmtudag.
Börn mánans fjallar um hóp ungs fólks sem býr saman í einskonar kommúnu. Í baksviði er Víetnamstríðið og sú ólga sem einkenndi líf ungs fólks á þeim tíma. Hópurin sem stendur að sýningunni telur um 15 manns og þar af hefur rúmur helmingur stigið á svið hjá LK áður. Sigurþór Albert Heimisson leikstýrir eins og áður segir, Sigrún Tryggvadóttir var honum til aðstoðar, Anna Sigríður Skarphéðinsdóttir sá um búninga og Arnar Ingvarsson um lýsingu. Næstu sýningar verða fimmtudag 10. og föstudag 11. apríl. Hægt er að panta miða í síma 823-9700.
Leikhúsið í Kópavogi hefur nú tekið á sig mynd þó margt sé enn eftir að gera áður en það telst fullbúið. Stefnt er að opnun hússins í september með sýningu byggðri á Skugga-Sveini Matthíasar Jochumssonar í leikstjórn Ágústu Skúladóttur.