Dagana 1.– 4. maí verður aðalfundur Bandalags íslenskra leikfélaga haldinn í félagsheimilinu Árgarði í Skagafirði og í tengslum við hann verður haldin einþáttungahátíð. Hún hefst að kvöldi fimmtudagsins 1. maí og stendur fram eftir föstudegi. Sjálfur aðalfundurinn hefst svo að morgni laugardagsins 3. maí og stendur fram að hádegi á sunnudeginum. Aðildarfélög Bandalagsins eru hér með eindregið hvött til að senda fulltrúa sína á Bandalagsþing og verk á einþáttungahátíðina. Frestur til að tilkynna þáttöku á hvort tveggja rennur út 18. apríl. Það er Leikfélag Sauðárkróks sem hefur veg og vanda að aðalfundi þetta árið.

Einþáttungahátíðin verður eins og áður sagði haldin í Félagsheimilinu Árgarði, setning hennar er kl. 20.00 þann 1. maí. Aðstaða í Árgarði er ágæt, þar er svið og áhorfendasalur en tæknidót er fátæklegt þar sem húsið hefur aðallega verið notað til að halda dansleiki, ekki sýna leiksýningar. Þeir sem ætla að koma með einþáttunga ættu þvi að hafa þá þannig í laginu að það komi ekki að sök. Við bendum á að í Þjónustumiðstöð Bandalagsins er til fullt af góðum einþáttungum. Kíkið á leiklist.is, farið í Leikritasafn og í ítarlega leit, þar getið þið leitað fram og til baka eftir ýmsum leitarskilyrðum. Hafið samband í síma 551-6975 eða í netfangið info@leiklist.is. Þátttökutilkynningareyðublöð hafa verið send til formanna og gjaldkera leikfélaganna.

Félagsheimilið Árgarður er í Skagafirði, stutt frá Varmahlíð. Þar við hliðina eru gististaðir fundargesta, Bakkaflöt og Steinsstaðir. Boðið er uppá gistingu í uppbúnum rúmum í 2ja til 3ja manna herbergjum, fullt fæði og sýningar einþáttungahátíðar fyrir 23.500 á mann í 3 nætur. Leikfélag Sauðárkróks, sem er gestgjafi fundarins, ætlar að bjóða fundargestum 50% afslátt af miðaverði (1000 kr.) á farsann Viltu finna milljón? í Bifröst á Sauðárkróki á föstudagskvöldið.

Dagskrá:

Fimmtudagur 1. maí
20.00 Setning Einþáttungahátíðar – Sýningar fram eftir kvöldi

Föstudagur 2. maí
8.00 Morgunverður – Sýningar
12.00 Hádegisverður – Sýningar
17.00 Slit hátíðar og umræður um sýningarnar
19.00 Kvöldverður
20.30 Viltu finna milljón?

Laugardagur 3. maí
08.00 Morgunverður
09:00 Aðalfundur settur
12:00 Hádegisverður
13:00 Framhald aðalfundar
17:00 Fundarhlé
20:00 Hátíðarkvöldverður Skemmtidagskrá og samvera

Sunnudagur 4. maí
08.00 Morgunverður
09:00 Framhald aðalfundar og fundarslit
13:00 Hádegisverður og heimferð

Samhliða aðalfundi fer fram sýning á leikskrám og veggspjöldum leikársins 2007-2008. Endilega takið með ykkur eintök ykkar leikfélaga.

Val Þjóðleikhússins á Athyglisverðustu áhugasýningu leikársins verður að venju kynnt á hátíðakvöldverðinum. Þið sem enn eigið eftir að sækja um gerið það sem allra fyrst. Umsóknareyðublöð má nálgast á forsíðu www.leiklist.is.

Þátttökugjald er 23.500 krónur á mann
Innifalið er:
– Gisting í 2ja-3ja manna herbergi í 3 nætur í uppbúnum rúmum
– Léttur kvöldverður á fimmtudagskvöldi við komu
– Morgunverður á föstudags-, laugardags- og sunnudagsmorgni
– Hádegisverður á föstudegi, laugardegi og sunnudegi
– Kvöldverður á föstudag
– Hátíðarkvöldverður á laugardagskvöldið
– Kaffi og með því á föstudag og laugardag
– Aðgangur á allar sýningar nema Viltu finna milljón?

Tilkynna þarf þátttöku fyrir 18. apríl til skrifstofu Bandalagsins í síma 551-6974 eða á netfangið info@leiklist.is.

{mos_fb_discuss:3}