Í byrjun mars hóf Leikfélag Sauðárkróks æfingar á gamanleikritinu Viltu finna milljón? eftir Ray Cooney en Gísli Rúnar Jónsson sá um íslenskun og gerði nýja leikgerð verksins. Leikstjóri er Jón Stefán Kristjánsson.
Þessi hressilegi stofufarsi fjallar um barnakennarann Ingibjörgu, skrifstofublókina Harald og 400 milljónir króna sem þeim skötuhjúum áskotnast allskyndilega. Þau ákveða þarna á staðnum að láta peningana renna óskipta til áhugaleikfélaga um allt land æ nei það var víst bara í draumaútgáfu LS. Þau Ingibjörg og Haraldur eru hinsvegar ekki sammála um hvað gera eigi við seðlana og í miðju rifrildinu koma gestir, og svo koma meiri gestir og fleiri gestir, bæði velkomnir og óvelkomnir og sumir hvort tveggja. Því má nærri geta að þá fer í gang misvelheppnaður feluleikur þar sem, jú, viti menn fólk dregur kolrangar ályktanir, leyndarmál gubbast upp úr vitlausu fólki og hurðir skellast hér og hvar og alls staðar. Sem sagt gott.
Með helstu hlutverk fara Guðbrandur J. Guðbrandsson, Elva Björk Guðmundsdóttir, Árni Jónsson, Ásdís Árnadóttir, Sindri Haraldsson, Jónatan Björnsson og Vignir Kjartansson. Frumsýnt verður í Sæluviku Skagfirðinga sem hefst sunnudaginn 27. apríl.