Norður-evrópska áhugaleikhúsráðið, NEATA, stendur fyrir leiklistarhátíðum á tveggja ára fresti og skiptast aðildarlöndin á að halda hana. Í sumar er komið að Lettlandi og verður hátíðin haldin í Riga dagana 5. til 10. ágúst. Til hennar er boðið sýningum frá aðildarlöndum NEATA: Danmörku, Eistlandi, Færeyjum, Finnlandi, Íslandi, Litháen, Noregi, Svíþjóð og Lettlandi.

Að þessu sinni sóttu þrjú íslensk leikfélög um að senda sýningar. Þau eru Leikfélag Fljótsdalshéraðs með Listina að lifa eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur í leikstjórn Odds Bjarna Þorkelssona, Hugleikur í Reykjavík með Útsýni eftir Júlíu Hannam í leikstjórn Rúnars Lund og Silju Bjarkar Huldudóttur og Leikfélag Kópavogs og Hugleikur með Bingó eftir Hrefnu Friðriksdóttur í leikstjórn Ágústu Skúladóttur.

bingohopur.jpg Stjórn Bandalags íslenskra leikfélaga skipaði valnefnd til að velja á milli umsókna. Hana skipa Lárus Vilhjálmsson, varaformaður Bandalags ísl. leikfélaga, Sigrún Valbergsdóttir, leikstjóri og kennari og Guðfinna Gunnarsdóttir, formaður Leikfélags Selfoss.

Nefndin hefur nú lokið störfum og ákveðið að Bingó eftir Hrefnu Friðriksdóttur í leikstjórn Ágústu Skúladóttur í uppsetningu Leikfélags Kópavogs og Hugleiks verði fulltrúi Íslands á leiklistarhátíð NEATA í Riga 2008.

Leikarar í Bingó eru Frosti Friðriksson, Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson, Erla Dóra Vogler, Júlía Hannam, Víðir Örn Jóakimsson og Jenný Lára Arnórsdóttir. Hrefna Friðriksdóttir, ásamt því að skrifa leikritið, hannaði hljóðmynd, leikmynd og búninga en lýsingu hönnuðu Skúli Rúnar Hilmarsson og Arnar Ingvarsson.

Leiklistarvefurinn óskar Bingó-hópnum innilega til hamingju!

{mos_fb_discuss:2}