Hugleikur sýndi nýverið leikritið "Undir hamrinum" á leiklistarhátíð NEATA í bænum Viljandi í Eistlandi. Einnig voru með í för nokkrir stjórnarmenn BÍL sem sátu aðalfund NEATA og kynntu sér framkvæmd hátíðarinnar.
Mánudagur 2. ágúst 4:00 – 14:30 Fall er fararheill Að misstíga sig í fyrsta skrefi þarf ekki að þýða að maður komist ekki á áfangastað. Vegabréf týndust, bíllyklar læstust inni í bílum og fólk svaf yfir sig en Hugleikarar og viðhengi komust samt til Kastrupflugvallar á tilsettum tíma og enginn sár til langframa. Ferðinni er heitið til Eistlands á 3. NEATA leiklistarhátíðina en þangað er stefnt norrænum og baltneskum leiklistarhópum og jafnvel einhverjum fleirum. Fulltrúi Íslands á hátíðinni er Leikfélagið Hugleikur sem ætlar að sýna leikritið Undir hamrinum eftir Hildi Þórðardóttur. Eins og við var að búast var nokkur spenna og eftirvænting í hópnum sem mætti á Umferðamiðstöðina klukkan 4.30 í morgun og steig þar upp í rútu. Ferðin í faðm Leifs Eiríkssonar var tíðindalítil og eftir tilheyrandi innkaup og "screwdriverdrykkju" til heiðurs erkigaflaranum Gunnari Birni ver haldið í loftið með Snorra Þorfinnssyni. Flugið var tíðindalítið og Kastrup heilsaði með blíðviðri og dönskum almennilegheitum. |
Þar uppgötvaðist "hotspot" eða heitur reitur eins og það kallast á íslensku. Það er fyrir óinnvígða svæði þar sem hægt er að komast í þráðlaust samband við hið stóra Internet. Það þótti sjálfsagt að nýta heita reitinn til að koma fyrstu fréttum af frægðarför Hugeikara heim á klakann. Haldið verður til Tallinn í Eistlandi eftir klukkutíma og er þangað verður komið munu rútur flytja okkur áfangastað sem er bærinn Viljandi. Um leið og heitur reitur finnst þar verður framhald hér á ferðasögunni.
Mánudagur 2. ágúst kl. 21:35 (að íslenskum tíma)
Ferðin frá Kastrup til Tallinn var tíðindalítil. Á flugstöðinni í Tallinn beið okkar hún Merit, ásamt tveimur aðstoðarstúlkum sem ætluðu að lóðsa okkur til Viljandi. Þangað var ekið í langferðabifreið og tók aksturinn um tvo tíma með tilheyrandi losunar- og áfyllingarstoppi. Reyndar var ekið í gegnum Viljandi um 5 kílómetra leið til Vanu-Voidu þar sem við gistum. Þar dveljum við með hinum leikhópunum og eistneskri herdeild sem vart virðist af fermingaraldri. Aðstæður voru hinar þokkalegustu og kvöldmaturinn ágætur að flestar mati.
Beðið eftir farangri á flugvellinum í Tallinn |
Og beðið enn |
Í Eistlandi er Ágústa mótorhjól |
Í Eistneskri vegasjoppu |
Eistneski fáninn dreginn af húni
Þriðjudagur 3. ágúst kl. 06:35 (að íslenskum tíma) Nú erum við búinn að snæða morgunmat og á leið til Viljandi að skoða aðstæður í Menningarsetrinu þeirra þar sem Undir hamrinum verður sýnt á morgun. |
Blíðunnar í Viljandi notið. |
Kaffihús í Viljandi |
Á svölum leikhússins í Viljandi
Ugala leikhúsið |
Frá opnunarhátíð |
Elisaveta Bam í flutningi leikhóps frá Tartu.
Miðvikudagur 4. ágúst
Það er eflaust farið að hljóma sem klisja í eyrum þeirra sem ekki þekkja til en eins og íslenskra leiksýninga er siður kom Hugleikur, sá og sigraði með sýningu sína "Undir hamrinum". Hamingjuóskum og þökkum hefur rignt yfir hópinn síðan sýningunum tveimur lauk og allir skiljanlega upp með sér yfir því.
Danir luku hinsvegar deginum með fyrirsjáanlega leiðinlegri leiksýningu. Uppskrúfað stykki sviðsett af "leikstjóra" sem er að sögn mikill margmiðlunarlistamaður og bar sýningin þess dapurlegt vitni. Plúsinn var að leikararnir voru flestir ágætir.
Fimmtudagur 5. ágúst
Allt að því fullkominn dagur í ýmsum skilningi. Þrjár frábærar sýningar, veðrið eins og best verður á kosið þó sumum finnist 29 gráður of mikið og flugnabitið í rénun hjá flestum. Um hádegisbil sáum við sýninguna frá Lettlandi sem reyndist dásamlega sviðsett útgáfa af Tartuffe eftir Moliere. Ótrúlega stílhrein, falleg og kraftmikil sýning. Mjög þéttur og góður leikhópur og þó ekki skildist orð hélt sýningin athygli okkar allan tímann. Ekki síður skemmtileg var sýningin frá Svíþjóð. Leikritið sem heitir Limpan er eftir Allan Edwald sem margir þekkja eflaust sem pabba Emils í Kattholti. Eins manns komedía með söngvum um náunga sem þykir helst til gott að fá sér staupinu og nokkurra daga leyfi sem hann fær af meðferðastofnuninni. Leikarinn var algerlega fæddur í hlutverkið. Sjarmerandi en nokkuð lifaður "bangsi" sem vann hug og hjörtu áhorfenda með einlægum en kraftmiklum leik og skemmtilegum vísnasöng. Finnar luku deginum með glæsibrag með unglingahópi sem futti gríðarlega kraftmikla og frumlega rokkóperu. Svona sýningu hefur maður aldrei séð áður. Mikið stuð. Þess ber þó að geta að ekki voru allir sammála um sýninguna. Nú liggur leiðin heim til Vana-Voidu þar sem kór Hugleiks hyggst troða upp. Meira um það síðar.
Limpan syngur um raunir sínar
Föstudagur 6. ágúst
Í gærkvöldi héldu íslendingar uppi fjörinu í festivalklúbbnum með söng af ýmsum toga. Meðal þess sem var á efnisskránni var eistneskur söngur sem vakti gríðarlega lukku hjá heimamönnum. Heimtuðu þeir að lagið yrði endurflutt og nokkrir þeirra skelltu sér á gólfið og dönsuðu þjóðdans af mikilli ákefð. Þá varð ekki síður fögnuður þegar kynnt var að flutt yrði danskt lag og kórinn hóf að synja Barbiegirl af mikilli list. Dönunum á staðnum fannst þetta ævintýralega skemmtilegt og sögðu þetta bestu útgáfu af laginu sem þeir hefðu heyrt. Dagskránni lauk síðan á því að allur íslenski hópurinn söng Bandalagið af miklum krafti.
Eitthvað var um að gleðin héldi áfram fram á nótt en allir mættu þokkalega hressir í morgunmatinn enda framundan skoðunar- og skemmtiferð til borgarinnar Tartu. Það setti nokkurn svip á daginn að hitinn fór yfir 30 gráður og runnu ófáir lítrar af öli og ýmsum svaladrykkjum niður um þurra hálsa.
Íslenski hópurinn fékk einkaleiðsögumann sem lóðsaði okkur um Tartu sem er mikill háskólabær og yfirbragð hans eftir því. Ferðin var áhugaverð enda margt að sjá í þessari fallegu borg. Síðan var um tveggja tíma frí sem einhverjir notuðu til að versla en fleiri þó til að kæla sig niður á einhverjum af hinum fjölmörgu veitingahúsum í miðbænum. Klukkan fjögur var síðan sameiginleg máltíð í gamalli púðurgeyslu sem breytt hefur verið í veitingastað. Þar var mikið etið og drukkið og margir fengu sér bjór í líterskrúsum sem þótti mikið sport.
Þá var loks haldið til baka til Viljandi þar sem fram fór gagnrýni á sýningarnar. Heimamaður að nafni Tiit eftir því sem næst verður komist og Jakob Oschlag rýndu í sýningarnar og var þokkaleg lukka með þeirra framlag. Þá var etið og eftir íslendingapartý hjá Ármanni og Dillu var gleðin síðan enn meiri en áður hafði verið í festivalklúbbnum. Nú eru enda allir hópar búnir að sýna nema Belgar sem gera það á morgun.
Í 32 stiga hita í Tartu |
Við aðalbyggingu háskólans í Tartu |
… og bjórinn teyga úr líterskrús… |
Sýnishorn af matnum sem hefur reyndar verið alveg ágætur. |
Í Svíþjóð er að finna harðan áhugaleikara að nafni Diana sem hefur látið tattóvera grímur á upphandlegg sinn. (Nú gæti viss húsmóðir á Vestfjörðum hleypt í brýrnar)
Þá er farið að líða að lokum þessarar leiklistarhátíðar og á morgun verður haldið heim. Í dag voru haldin námskeið af ýmsu tagi og einnig funduðu fulltrúar á NEATA um framtíð samtakanna. Fundurinn reyndist nokkuð fjörugur og nokkrar umræður urðu um val sýninga á leiklistarhátíðir og tímalengd þeirra. Íslendingar og Baltarnir voru sammála um að tímamörk skyldu vera og þeim framfylgt en Danirnir sáu á því öll tormerki.
Íslenski hópurinn reyndist vera langáhugasamastur um námskeiðin sem í boði voru og hefði sennilega þurft að fella einhver þeirra niður ef svo hefði ekki verið. Sérlega lukku vakti "Stage fighting" þar sem menn slógust af miklum móð með sverðum eða berum hnefum. Allir sluppu ósárir frá því enda einkunnarorð "sviðslagsmálahunda" (Safety first) höfð að leiðarljósi.
Síðdegis var síðasta sýning hátíðarinnar í flutningi leikhóps frá Belgíu. Er skemmst frá því að segja að sýningin var rúmir tveir tímar með hléi og voru áberandi færri eftir hlé en fyrir. Í leikskrá höfðu Belgarnir ekkert skafið af því hversu góðir þeir væru en því miður reyndist það fjarri sanni. Allt frá byrjun hamaðist hópurinn eins og djöfulóður, hrópaði og kallaði, grét og ákallaði himnana. Á bak við hamaganginn var síðan tónlist sem var orðin ansi pirrandi eftir stöðuga spilun í 10 mínútur. Þá var skipt yfir í aðra tónlist og gekk það þannig nánast án hlés út sýninguna. Leikararnir virtust svo sem þokkalegir sem slíkir en sú aðferð sem var viðhöfð til sviðsetningar var algerlega út í hött. Salurinn nánast tæmdist í hléinu eins og áður sagði en þó sýndu flestir úr íslenska hópnum af sér hörku og voru allt til enda. Ýmisr höfðu þó á orði að þessi sýning sannaði nauðsyn þess að hafa tímamörk.
Um kvöldið var síðan haldið lokahóf þar sem gestgjafar og gestir tróðu m.a. upp með eigin útgáfur af sýningum annarra hópa. Mikið hlegið, mikið talað og eitthvað drukkið fram eftir nóttu. Stórkemmtilegri leiklistarhátíð er lokið og á morgun fara allit til síns heima.
Úr Belgísku sýningunni |
Úr lokahófi |
Glæsilegt veisluborð í lokahófi hátíðarinnar |
Limpan frá Svíþjóð tjáir stjórnarmanni í BíL ævarandi ást sína |
Íslendingar og Lettar stinga saman nefjum |