Fyrir skömmu hófust æfingar hjá Leikfélagi Siglufjarðar á uppsetningu leikársins. Fyrir valinu var bráðfjörgur ærsla- og gamanleikur eftir ítalska leikskáldið Carlo Goldoni. Leikurinn nefnist Tveggja þjónn og var fyrst sýndur hér á landi af Leikfélagi Reykjavíkur fyrir nokkrum áratugum í Iðnó þar sem Arnar Jónsson sló í gegn í aðalrullunni. Hinsvegar var leikurinn frumfluttur á Ítalíu fyrir langa löngu eða árið 1753. Sagt er að gömul vín eldist vel og á það líka við þennan leik Goldonis enda hefur hann verið sýndur um heim allan alveg frá því hann var leikinn fyrst.

Leikstjóri er Elfar Logi Hannesson og er þetta í fyrsta sinn sem hann leikstýrir hjá Leikfélagi Siglufjarðar. Hann hefur hins vegar leikstýrt hjá fjölmörgum áhugaleikfélögum og má þar nefna leiki á borð við Línu Langsokk, Stræti, Stæltir stóðhestar, Bróðir minn ljónshjarta og Land míns föðrus. Alls taka 12 leikarar þátt í uppfærslu og þar á meðal eru nokkrir nemendur úr Grunnskóla Siglufjarðar. Fjölmargir aðrir koma að uppfærslunni s.s. við búningasaum, leiktjaldamál, ljós og fleira sem viðkemur uppfærslu á leikverki.

Leikfélag Siglufjarðar var stofnað 4. apríl 1951 og ári síðar var fyrsti leikurinn settur á svið sem var Græna lyftan. Allar götur síðan hefur Leikfélagið starfað af miklum krafti og sett upp fjölmargar sýningar. Tveggja þjónn er 51. verkefni Leikfélags Siglufjarðar.

Áætluð frumsýning á Tveggja þjónn er 22. febrúar í Bíó-Kaffi á Siglufirði.

{mos_fb_discuss:2}