Þjóðleikhúsið frumsýnir þann 25. janúar, leikritið Vígaguðinn eftir franska leikskáldið Yasmina Reza. Leikstjóri er Melkorka Tekla Ólafsdóttir, þýðinguna gerði Kristján Þórður Hrafnsson og leikarar í sýningunni eru Baldur Trausti Hreinsson, Edda Björg Eyjólfsdóttir, Friðrik Friðriksson og Þórunn Lárusdóttir.
Tvenn hjón sem þekkjast ekki, foreldrar tveggja ellefu ára drengja ákveða að hittast eftir að annar drengurinn hefur slasað hinn með því að slá hann þegar þeir voru úti að leika sér. En þetta siðmenntaða fólk er ekki allt þar sem það er séð, frekar en aðrar manneskjur. Undir fáguðu yfirborði ólga hinar frumstæðu og dýrslegu hvatir. Árásargirni manneskjunnar virðast engin takmörk sett. Fyrr en varir er enginn óhultur.
Gaman og alvara vega salt í þessu verki þar sem orðsnilld og hagleikur Reza nýtur sín afbragðsvel. Perónurnar eru á köflum kunnuglegar týpur.
– Kúgaður fjölskyldufaðir sem er búinn að fá gjörsamlega nóg…
– Óaðfinnanleg eiginkona sem á í örvæntingarfullri baráttu um athygli eiginmannsins við gemsann hans…
– Kaldrifjaður fulltrúi hins jakkafataklædda yfirgangs og lögmála frumskógarins…
– Hugsjónakona sem uppfull af heilagleika býr yfir öllum lausnunum á vandamálum heimsins…
Þekkir þú svona fólk? Það veit ekki á hverju það á von!
Yasmina Reza er eitt þekktasta leikskáld samtímans. Hinn hárbeitti húmor hennar, sem íslenskir áhorfendur þekkja úr leikritinu Listaverkinu er sló í gegn í sýningu Þjóðleikhússins árið 1997, nýtur sín afar vel í þessu verki. Vígaguðinn er í senn æsispennandi, háalvarlegt og bráðfyndið verk, þar sem á óvæntan og ferskan hátt er fjallað um mörkin á milli þess siðmenntaða og villimannslega í manninum.