Hin geysivinsæla sýning á Óvitum mun víkja af sviði Leikfélags Akureyrar þann 6. janúar til að rýma til fyrir nýrri frumsýningu á Fló á skinni. Uppselt hefur verið á allar sýningar verksins en tvær síðustu aukasýningarnar eru komnar í sölu, þann 28. desember og 5. janúar. Þegar þessar sýningar hafa verið sýndar verður aðsóknarmet fallið því þá hafa fleiri séð Óvita á Akureyri en Fullkomið brúðkaup sem er vinsælasta sýning LA frá upphafi. Áhorfendur verða þá rúmlega 12.000. Reyndar verður Fullkomið brúðkaup áfram aðsóknarmesta sýning LA í heild sinni, því auk tæplega 12.000 gesta á Akureyri sáu um 14.000 gestir sýninguna í Reykjavík.  Óvitar víkja nú en stefnt er að útgáfu sýningarinnar á DVD fyrir páskana og sýningin snýr aftur á svið Samkomuhússins í september 2008.
Óvitar eftir Guðrúnu Helgadóttur voru frumsýndir hjá LA 15. september sl. í leikstjórn Sigurðar Sigurjónssonar. Jón Ólafsson samdi nýja tónlist við verkið við texta Davíðs Þórs Jónssonar. 18 börn taka þátt í sýningunni og leika við hlið fullorðinna leikara en í aðalhlutverkum eru Guðjón Davíð Karlsson og Hallgrímur Ólafsson.
 
Það er stefna LA að sýna hvert verk þétt en í tiltölulega stuttan tíma og þannig tryggja að staðið sé við sýningaráætlun hvers leikárs. Af þeim sökum var ákveðið að taka Óvita af fjölunum nú þrátt fyrir að enn sé glimrandi aðsókn. Því verður gamanleikurinn Fló á skinni frumsýndur 8. febrúar og sýndur fram á vor eins og að var stefnt. LA státar af stórum hópi kortagesta sem þegar hafa keypt miða á sýningar á Fló á skinni og því þótti ekki boðlegt að fresta gamanleiknum langt fram á vor eða jafnvel til næsta hausts.
 
Óvitar hafa verið sýndir allt að fimm sinnum í viku. Ökutímar sem frumsýndir voru 2. nóvember hafa einnig notið fádæma aðsóknar og verður verkið sýnt út janúar.

{mos_fb_discuss:2}