Um helgina sýndi Leikdeild Ungmennafélagsins Eflingar sýningu sína á "Landsmótinu" í Þjóðleikhúsinu. Hörður Sigurðarson sá sýninguna á sunnudag og varð það honum tilefni hugleiðinga um hið árlega val á "Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins". Athyglisverðasta leiksýningin!
Landsmot

Þjóðleikhúsið hefur um nokkurra ára skeið valið “Athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins” og boðið aðstandendum hennar að sýna hana í Þjóðleikhúsinu.  Þetta framtak leikhússins undir forystu Stefáns Baldurssonar vakti á sínum tíma ánægju og aðdáun innan áhugahreyfingarinnar og þótti mikil viðurkenning á gildi áhugaleiklistar í landinu. Valið hefur farið fram árlega og eins og við er að búast hefur jafnan verið töluverð umræða um það hverju sinni. Stundum virðast menn almennt sammála valnefndinni en þess á milli hafa margir verið ósammála og jafnvel hneykslast á vali nefndarinnar. Slíkt er eðlilegt og í sjálfu sér ekkert til að hafa áhyggjur af. Stefán Baldursson og hans fólk hefur enda ítrekað bent á að ekki sé endilega verið að velja bestu leiksýninguna heldur, eins og heitið gefur til kynna, “Athyglisverðustu áhugaleiksýninguna”.

Í ár varð sýning Leikdeildar UMF Eflingar á Landsmótinu fyrir valinu og var af því tilefni sýnd tvisvar í Þjóðleikhúsinu um liðna helgi. Þetta er í annað sinn sem sýning Leikdeildar Eflingar er valin, því fyrir nokkrum árum var sýning þeirra á “Síldin kemur, síldin fer” valin “Athyglisverðasta áhugaleiksýningin”og í kjölfarið sýnd í Þjóðleikhúsinu. Undirritaður sá þá sýningu og þótti hún skemmtileg. Stór og fjölbreyttur leikhópur Eflingar flutti hana af miklum krafti og þó nokkrum hæfileikum og þó ekki væri sýningin gallalaus, var svo margt við hana athygli vert, að valnefndin hafði sterk rök fyrir  vali sínu það árið. Í gær sá ég síðan sýningu Eflingar á Landsmótinu og hafði hún þau áhrif á mig að ég hef síðan velt vöngum yfir fyrirbærinu “Athyglisverðasta áhugaleiksýningin”.

Skemmst er frá því að segja að ég varð fyrir miklum vonbrigðum með Landsmótið sem er meingölluð leiksýning á flestum þeim sviðum sem máli skipta. Grunnhugmyndin er alls ekki slæm og fyrirfram hefði maður álitið að ekki ætti að vefjast fyrir þeim Eflingarmönnum að setja á svið skemmtilega sýningu um það gegnumíslenska fyrirbæri sem Landsmót Ungmennafélaganna eru. Því miður mistekst það hrapallega og eftir stendur tveggja- og hálfrar klukkustundar langt “sketsaprógramm” sem brotið er upp með bítlalögum sem leikendur syngja íslenska texta við.

Það fer víst ekki á milli mála að undirritaður er langt frá því að vera ánægður með sýningu þeirra Eflingarmanna. Undirritaður hefur séð ýmsar lélegri sýningar en Landsmótið. Munurinn er sá að þær sýningar voru ekki teknar úr úrvali íslenskrar áhugaleiklistar sem eitthvað sem ástæða var til að hampa. Það er ekkert að því að setja upp LÉTTAR leiksýningar sem hafa það eitt að markmiði að skemmta áhorfendum. Það er meira að segja ekkert að því að setja upp LÉTTVÆGAR leiksýningar sem byggja á klisjum og gömlum lummum. Slíkar sýningar á bara EKKI að velja sem það athyglisverðasta sem áhugaleikhúsið býður upp á. Slíkt er í mínum huga virðingarleysi við þá sem á liðnu leikári hafa í raun og veru verið að gera athyglisverða hluti í íslensku áhugaleikhúsi. Hefði sýning á borð við “Landsmótið” verið valin framyfir “Síldina …” hér um árið hefði það á þeim tíma verið virðingarleysi við Leikdeild Eflingar. 

Væri hér verið að skrifa sérstaka umfjöllun eða gagnrýni um sýninguna væri undirritaður alls ekki jafn harðorður og orð bera vitni og myndi auk þess tína til þá góðu punkta sem þó mátti finna inn á milli í sýningunni. Slíkt var bara ekki á dagskrá eftir sýninguna þar sem ég braut heilann ákaft um það hvað lá að baki vali nefndar Þjóðleikhússins á “Landsmótinu” sem athyglisverðustu áhugaleiksýningu ársins. Ég get nefnilega ekki með nokkru móti skilið hvað það er sem valnefnd Þjóðleikhússins sá athygli vert í sýningunni. Hér vilja ýmsir eflaust benda á að ekki sé verið að velja bestu leiksýninguna heldur þá athyglisverðustu. Það er undirrituðum alveg ljóst.

Sama hvernig á það er litið er ekkert það í sýningunni sem er sérstakrar athygli vert ef borið er saman við aðrar sýningar sem settar voru upp í áhugaleikhúsinu á liðnu ári. Hvað var svona athyglisvert?
Var það LEIKRITIÐ?? Eins og áður sagði minnir verkið fremur á langa Þorrablótsskemmtun en leikrit og með því er ekki á nokkurn hátt verið að kasta rýrð á Þorrablót enda eiga allir hlutir sinn stað og stund. Hér var hinsvegar ekkert sem ekki hefur verið gert hundrað sinnum áður og oft mun betur. Verkið sjálft er á mörkum þess að geta kallast leikrit. Landsmótið er bakgrunnur þess sem gerist en lítil tilraun er  gerð til að búa til áhugaverða fléttu eða skapa eftirminnilegar persónur sem hér eru flestar gangandi, eða í sumum tilfellum hlaupandi, klisjur. Klisjan um hina stóru, sterku en þumbaralegu sveitamenn annarsvegar og kókþambandi borgarbörnin hinsvegar er borin á borð án þess að nokkur tilraun sé gerð til að krydda hana á nýjan hátt.
Var það EFNISVALIÐ? Hvernig gæti það verið? Það líður ekki svo leikár að félögin setji ekki upp sýningar sem snúast um vel þekkt fyrirbæri úr sögu landsins að fornu eða nýju. Slíkt er ekki lengur sérstakt eða merkilegt í sjálfu sér.
Var það LEIKURINN? Margir léku þokkalega í sýningunni en ekkert meira en það enda var svo sem ekkert í verkinu sem bauð upp á slíkt.
Var það SVIÐSETNINGIN? Nei og aftur nei. Ég trúi ekki öðru en að leikstjórinn sem áður hefur gert góða hluti, viðurkenni að Landsmótið sé ekki hans besta. Ekki var heldur séð að reynt hefði verið að “dramatisera” verkið eða einstakar senur með neinum hætti, þar sem leikendur stóðu mestanpart stjarfir á sviðinu meðan þeir fluttu texta og tónlist. Þess á milli var flæði “verksins” brotið upp, þegar leikarar fóru inn og út af sviðinu, með algerlega tilgangslausum myrkvunum. Til hvers í ósköpunum er verið að myrkva sviðið meðan ein persóna fer út og önnur kemur inn ef verið er að sýna sama svið og sama tíma? 
Var það TÓNLISTARFLUTNINGURINN? Nei, svo undarlegt sem það er. Tónlistarflutningur Eflingar hefur löngum verið rómaður en hér var tónlistin sjaldan meira en þokkalega flutt. Auk þess getur það ekki annað en eyðilegt töfra leikhússins, séu þeir á annað borð til staðar, þegar leikarar þrífa upp hljóðnema í hvert sinn sem þeir hefja upp raust sína eða eru með undarlegan útvöxt milli eyrna sér og munns til að syngja í. Ekki gera þessi hjálpartæki söngleikjanna heldur mikið fyrir “magíkina” þegar verið er að setja upp  “períóduverk” sem með hálfum huga er reynt að gera hér. Hvar er líka sköpunin eða listfengið í því að syngja misgóða íslenska texta við þekkt  Bítlalög?
Voru það HEILDARÁRIF SÝNINGARINNAR? Nei, slíkum áhrifum var aldrei fyrir að fara enda hver einstakur þáttur sýningarinnar of veikur til þess. Svona væri hægt að halda áfram en það myndi ekki þjóna neinum tilgangi. Sama hvar borið er niður, þá er ekki hægt að koma auga á það sem valnefndinni þótti athygli vert í sýningu Eflingar.

Fólk sem sá sýningu Eflingar heima í héraði minntist á kraftinn og fjörið sem einkennt hefði sýninguna þar og sem valnefnd Þjóðleikhússins minntist einnig á í umsögn sinni. Þann kraft og það fjör var ekki að finna í sýningunni á sunnudagskvöld í Þjóðleikhúsinu. Vissulega hlógu, klöppuðu og æptu áhorfendur margir hverjir enda greinilega margir ættingjar og vinir að skemmta sér með sínu fólki sem eðlilegt er. Hinsvegar stafaði hrifning áhorfenda ekki af því að leiklistin sem í boði var, væri af þeim gæðum að salurinn hreinlega réði ekki við sig. Eflaust hefur sýningin notið sín betur þar sem hún var æfð upp og sýnd upphaflega en þó erfitt sé að halda öllum blæbrigðum og fínni smáatriðum sýningar, hlýtur kjarni hennar þó að þola að hún sé sýnd í öðru húsi. Einnig má spyrja hvort krafturinn og leikgleðin ein og sér, séu nægjanleg ástæða til að sýning teljist sú athyglisverðasta af öllum leiksýningum áhugafélaganna á leikárinu. Það er a.m.k. ekki sú sýn sem undirritaður hefur á það sem athyglisverðast má telja í áhugaleikhúsinu.

Leikdeild Eflingar hefur áður sýnt að þar á bæ geta menn sett upp góðar og athyglisverðar sýningar. “Síldin…” og uppsetning þeirra á “Fiðlaranum á þakinu” sem undirritaður sá því miður ekki, en hefur eftir þeim sem sáu að hefði verið mögnuð sýning, sanna það. Hér bregst þeim því miður bogalistin. Ekki er að efa ýmsum finnist einkennilegt af undirrituðum að taka Leikdeild Eflingar fyrir á þennan hátt. Þau réðu nú litlu um það hvort þau yrðu valin, ekki satt? Jú, það er satt en staðreynd málsins er að þau sóttu um. Fyrir undirrituðum snýst málið m.a. um þá staðreynd að forráðamenn Eflingar telja Landsmótið það góða og athyglisverða leiksýningu að hún eigi erindi á svið Þjóðleikhússins. Því fylgir að áhorfendur (eða a.m.k. undirritaður) gera þá kröfu að sýningin standi upp úr meðalmennskunni, að hún hafi eitthvað það við sig sem geri hana sérstaka og jafnvel einstaka meðal þess sem í boði er í íslensku áhugaleikhúsi.

Kannski sækja sum leikfélög um að koma til álita með sýningu sem þá athyglisverðustu á leikárinu, án tillits til þess hvort sýningin sé á nokkurn hátt athygli verð. Sömu leikfélögin virðast sækja um á hverju ári og virðist engu skipta hvað þau hafa sett á svið. Eru þessi félög að setja svona merkilegar sýningar á svið á hverju ári eða sækja þau vélrænt um, bara vegna þess að þau geta það? Skoðun undirritaðs er sú að við sem störfum í áhugaleikhússhreyfingunni verðum að gera okkur grein fyrir því að þeim “rétti” til að sækja um “Þjóðleikhússsýningu” hver leikárs, fylgir einnig sú “skylda” að sækja ekki um nema forráðamenn viðkomandi félaga séu í hjarta sínu sannfærðir um að sýningin eigi í raun erindi þangað.

Var liðið leikár kannski svo dapurt í heildina að Landsmótið var í raun það athyglisverðasta sem í boði var í íslensku áhugaleikhúsi? Ég hef ekki trú á því en hafi það verið raunin hefði verið eðlilegra, heiðarlegra og hollara fyrir íslenskt áhugaleikhús ef engin sýning hefði verið valin í ár. Engum er greiði gerður og allra síst áhugahreyfingunni með því að velja það illskásta. Hitt myndi frekar verða félögunum hvati til að gera betur á næsta ári.

Það skal tekið fram að það sem hér hefur verið ritað er skoðun undirritaðs og ekki neins þess félags eða stjórna félaga sem undirritaður á sæti í.
Ég vonast til að þessi orð  veki mikil og jafnvel hörð viðbrögð. Ég óttast að þessi orð veki lítil og jafnvel engin viðbrögð. Það síðarnefnda væri verra fyrir alla aðila málsins.

Hörður Sigurðarson