Þann 1. desember næstkomandi verður frumsýtt glænýtt, íslenskt jólaleikrit með söngvum í Skemmtihúsinu við Laufásveg. Leikritið ber nafnið „Lápur, Skrápur og jólaskapið“. Höfundur verksins er Snæbjörn Ragnarsson en hann skrifar meðal annars Ævintýri Stígs og Snæfríðar í Stundinni okkar. Snæbjörn semur einnig tónlistina í verkinu ásamt Arngrími Arnarsyni. Leikstjórn er í höndum Önnu Bergljótar Thorarensen.
Verkið fjallar um tvo Grýlusyni, þá Láp og Skráp. Þeir eru einu tröllabörnin í Grýluhelli sem hafa ekki enn komist í jólaskap. Grýla mamma þeirra rekur þá því af stað úr hellinum og bannar þeim að koma þangað aftur fyrr en þeir eru búnir að finna jólaskapið. Lápur og Skrápur leita um allt og ber leitin þá inní svefnherbergi Sunnu litlu. Hún ákveður að hjálpa þeim bræðrum og saman lenda þau í allskonar ævintýrum. Leikritið er bráðfyndið, skemmtilegt og felur í sér fallegan jólaboðskap. Þetta er fjölskylduleikrit sem ungir jafnt sem aldnir hafa gaman að.

Samhliða uppsetningu á jólaleikritinu verður gefin út geislaplata með sögunni.

Verkið verður sýnt í Skemmtihúsinu við Laufásveg 22. Skemmtihúsið verður í jólabúningi í desember og verður skreytt hátt og lágt að innan sem utan. Það verður því sannkölluð jólastemming að koma þangað í heimsókn og njóta ævintýraheimsins sem þar verður innandyra.

Miðapantanir og upplýsingar í síma 849-3966 og á www.kradak.is