Fjölskyldusýningin „Þú ert nú meiri jólasveinninn“ verður frumsýnd í Rýminu hjá LA  sunnudaginn 2. desember klukkan 14:30. Sýningin er samstarf Smilblik og LA. Hér birtist leikarinn, tenórinn, trúðurinn, heimsmaðurinn og eineltisbarnið Stúfur eins og við höfum aldrei séð hann áður; geislandi af hæfileikum, ljúfur, hrjúfur, spriklandi og sprellfjörugur.

Jólasveinninn Stúfur sýnir og sannar í þessari sýningu að hann er enginn venjulegur jólasveinn. Hann hefur markvisst unnið í að útvíkka starfssvið sitt í von um fleiri „heilsárs“-verkefni, og hefur nú kynnt sér leikhúsið til hlítar; lært að syngja, dansa og segja sögur í mismunandi leikstílum – og síðast en ekki síst, lært hlusta á leikstjórann. Hann segir áhorfendum sannar sögur af sjálfum sér og samferða-„fólki“ í bland við frumsamin krassandi ævintýri sem ættu að gleðja jafnt börn, unglinga, foreldra, afa og ömmur – og jafnvel hina geðvondu og sípirruðu móður listamannsins, sjálfa Grýlu.

Og þá hefur Stúfur ferðast um heiminn og samið kynstrin öll af lögum en sum þeirra ætlar hann að syngja fyrir gesti sína á Akureyri. Það er upplagt að stytta biðina eftir jólunum í heimsókn hjá Stúfi, því að með honum leiðist sko engum. Sýningin er tilvalin fyrir fjölskyldur og hópa, stóra og smáa. Sýningar verða allar helgar fram að jólum og milli jóla og nýárs. Einnig er hægt að panta sérstakar sýningar fyrir hópa á öðrum tímum skv. samkomulagi.  Sýningin tekur tæpa klukkustund í flutningi og miðaverð er aðeins 1.450 kr.

Við undirbúning sýningarinnar hefur Stúfur notið leiðsagnar einvala leikhúsfólks af láglendinu, en meðal þeirra sem aðstoðuðu hann eru leikkonan og leikskáldið Margrét Sverrisdóttir, leikstjórinn Ágústa Skúladóttir, leikskáldið og söngtextahöfundurinn Sævar Sigurgeirsson, tónskáldið, söngtextahöfundurinn og leikhúsmaðurinn Oddur Bjarni Þorkelsson, leikmynda- og búningahönnuðurinn Katrín Þorvaldsdóttir, tónskáldið og tónlistarstjórinn Gunnar Benediktsson og ljósahönnuðurinn Arnar Ingvarsson.

{mos_fb_discuss:2}