Leikfélag Selfoss brá á haustdögum undir sig betri fætinum og fór með sýninguna Hnerrinn, eftir Anton Chekov á leiklistarhátíð í Roskisis í Litháen. Formaður félagsins, Guðfinna Gunnarsdóttir, var í leikhópnum og ritaði ferðasögu sem hér er birt með góðfúslegu leyfi Suðurgluggans.
Félagar úr Leikfélagi Selfoss eru nýkomnir heim úr leikferð til Litháen þar sem hópurinn tók þátt í leiklistarhátíðinni Interrampa 2007 með sýninguna Hnerrinn eftir Anton Chekov. Ferðin tókst í alla staði vel og var hópnum einkar vel tekið. Er þetta fyrsta leikferð félagsins í 23 ár, en síðast fór Leikfélagið á viðlíka hátíð sem haldin var á Írlandi. Förinni var heitið til bæjarins Rokiskis, bæjar á stærð við Árborg sem liggur norðarlega í Litháen nálægt landamærum Lettlands. Rokiskis er rómaður mjólkurframleiðslubær og ostarnir sem þar sem framleiddir eru víðfrægir og voru bæjarbúar mjög hissa og ánægðir að heyra að í heimabæ Íslenska hópsins væri einnig viðamikil framleiðsla á mjólkurafurðum.

Hópurinn tékkaði sig og sitt hafurtask eldsnemma inn til þess að tryggja nú að allt kæmist með, en í farangrinum leyndust ýmsir undarlegir leikhúsmunir eins og garddínustangir, niðursagaður hestvagn, uppstoppuð rjúpa og tvær leikfangaskammbyssur. Skammbyssurnar atarna urðu til þess að framkvæmdastjóri Bandalags íslenskra leikfélaga, Vilborg Valgarðsdóttir, var kallaður upp og hún látin mæta til öryggisgæslunnar þar sem taskan með byssunum góðu var óvart tékkuð inn á hennar nafni. Gerður Sigurðardóttir, stjórnarliði, reddaði málinu með blíðmægli sinni og náði að sannfæra öryggisverði um að byssurnar væru ekki á leiðinni til útlanda til vafasamra verka. Ferðin út gekk að öðru leyti vel, millilent var í Kaupmannahöfn og þaðan flogið til Vilníus, höfuðborgar Litháen. Þar beið okkar hópur af leikurum frá Rússlandi og Hollandi sem voru samferða okkur í rútu til Rokiskis. Eftir að hafa setið í aldagamalli rútu í rúma þrjá tíma var loksins komið á áfangastað og tekið vel á móti hópnum.

Hátíðin var sett daginn eftir, en áður en hún hófst, var farið í skoðunarferð með hópinn um bæinn og skoðað athyglisvert safn um svæðið sem sett hefur verið upp í höll greifa nokkurs sem hét Jonas, en ansi margir karlmenn í Litháen eru nefndir Jonas. Greifi þessi átti landið þar sem Rokiskis stendur í dag og andspænis höllinni skoðuðum við fallega kirkju sem stendur í miðjum bænum. Einnig fengum við að skoða sviðið þar sem við áttum að sýna og reyndist það vera risastórt, alvöru svið á stærð við sviðið í fráfarandi, fyrirhuguðum, fyrrverandi menningarsal Hótel Selfoss. Sviti spratt fram á ennum manna og hófust að sjálfsögðu miklar spekúlasjónir um hvernig við gætum gert okkur breiðari og stærri á alla kanta til að koma vel út á stærra sviði. Það varð svo seinni tíma vandamál, þar sem við áttum að sýna á hádegi á sunnudegi og fengum ekki aðgang að sviðinu fyrr en seint á laugardagskvöldi. Leikstjórinn Hörður Sigurðarson, áðurnefnd Vilborg og Guðfinna Gunnarsdóttir, formaður Leikfélagsins, fóru í sérstaka móttöku hjá bæjarstjóra Rokiskis og voru leyst þaðan út með gjöfum og notaði formaðurinn tækifærið og afhenti bæjarstjóranum myndabók um Ísland. Stressi var því ýtt til hliðar og einbeitti fólk sér að því að skoða hvað aðrir hópar hefðu fram að færa. Dagskráin var þétt og tíminn leið hratt. Til viðbótar við að horfa á sýningar frá Litháen, Eistlandi, Rússlandi, Lettlandi og Hollandi, sá hver hópur um svokölluð workshop, þar sem leikhóparnir kynntu sína starfsemi og töluðu um verkefnin sín. Einnig fóru fram umræður um allar sýningarnar þar sem sérfræðingar ræddu um hvernig til hefði tekist.

lithaenhopur.jpgÁ kvöldin var boðið upp á samveru með ýmsum uppákomum frá heimamönnum, eitt kvöldið sungu þjóðdansarar og dönsuðu og nörruðu alla í dans með sér sem var einkar skemmtilegt. Annað kvöld var tískusýning frá hönnuðum af svæðinu, sem vakti mikla eftirtekt og lokakvöldið hófst með formlegri lokahátíð með tilheyrandi ræðuhöldum og klappi. Eftir það var hátíðarlokum fagnað mikið og lengi og kom í ljós að Rússar og Íslendingar virtust eiga skap saman og sátu saman sungu til skiptis rússnesk og íslensk þjóðlög og vísur. Ekki virtist tungumálið skipta máli í þeim samskiptum.

Kvöldið fyrir sýningu fengum við salinn afhentan til uppsetningar og tók tæknilið til óspilltra málanna að laga ljós og græja leiktjöld. Finna þurfti allskonar húsgögn til að nota í sýningunni og stússast mikið. Tækniliðið fékk því lítinn nætursvefn og var að alla nóttina. Svo var tæknirennsli eldsnemma um morguninn, enda flókin sýning með mikið af skiptingum sem þurftu að ganga upp. Hálftíma fyrir sýningu var allt klárt, leikarar smelltu sér í búninga og drógu andann djúpt. Sýningin gekk frábærlega vel og fékk mjög fínar viðtökur. Í umræðum eftir sýninguna var allri umgjörð hrósað mikið og mikið talað um hversu vel okkur hefði tekist til að endurspegla hinn sanna Chekovska anda. Þó svo að fólk hefði ekki skilið eitt aukatekið orð í leikritinu, þá virtist sem sögurnar hafi skilað sér og vorum við mjög ánægð með það. Það sem jók enn meira á ánægju okkar var að rússarnir voru hæstánægðir með sýninguna og nálguðust formann félagsins sérstaklega til að þakka fyrir sig og sögðu að Chekov væri þeim sérstaklega hjartfólginn höfundur og ekki á allra færi að túlka hann, en okkur hefði tekist það vel. Rússarnir vildu einnig bjóða okkur að koma með sýninguna til Rússlands, en það á allt eftir að koma í ljós.

Við önduðum léttar, skelltum okkur í mat, enginn tími til að hvíla sig og fórum svo að horfa á fleiri sýningar. Telst okkur til að alls höfum við séð níu sýningar í það heila, allar sýningar fyrir utan okkar eigin að sjálfsögðu. Þær voru misjafnar eins og þær voru margar, en ótrúlega magnað að upplifa það að horfa á sýningu á framandi tungumáli og skilja alveg hvað verið var að segja. Leikhúsið virkar bara þannig.

Eftir að hafa kvatt leiðsögumenn og umsjónarmenn með kostum og vilyrðum og viljayfirlýsingum um áframhald á samskiptum og góðum kynnum, var hópnum rúllað upp í rútu og förinni heitið til höfuðstaðarins Vilníus þar sem hópurinn notaði tækifærið og hvíldi lúin bein og tók út spennufall eftir helgina.

Við í Leikfélagi Selfoss viljum þakka öllum þeim sem veittu ferðinni brautargengi með ómetanlegum stuðningi og lítum björtum augum til frekara menningarsamskipta heima og heiman. Leikum Núna!

Hnerraliðið í Leikfélagi Selfoss