Hjá Leikfélagi Dalvíkur standa nú yfir æfingar á Sölku Völku eftir sögu Halldórs Laxness í leikgerð Ingu Bjarnasonar og fleiri. Inga Bjarnason hefur verið ráðin leikstjóri að verkinu. Þetta er viðamikil uppfærsla, en um 40 manns taka þátt í henni, konur, karlar og unglingar og börn. Í uppfærslunni er bæði tónlist og söngur. Það er svo sannarlega mikið líf og fjör í Ungó þessa dagana, leikhúsi þeirra Dalvíkinga, enda æft af kappi 6 daga vikunnar.
Leikfélag Dalvíkur býður skólum á Eyjafjarðarsvæðinu sérstakt samstarf, þar sem 9. og 10. bekkingum gefst kostur á að sjá þessa uppfærslu í tengslum við íslenskukennslu. Upplýsingar hafa verið sendar í flesta skóla á svæðinu vegna þessa og það er von stjórnar LD að sem flestir nýti sér þetta skemmtilega tækifæri til að fara í leikhús og njóta þess sem þar er reitt fram.
Stefnt er að frumsýningu á Sölku Völku föstudaginn 9. nóvember næstkomandi og áætlað er að sýna verkið fram undir miðjan desember. Auk þess er stefnt að 2-3 aukasýningum milli jóla og nýárs. Miðaverð er kr. 2.400 og tekið er á móti miðapöntunum í síma félagsins 868 9706.
Að sögn Arnars Símonarsonar, formanns Leikfélags Dalvíkur, hefur gengið ágætlega að manna í hlutverk og fá fólk í byggðarlaginu til aðstoðar á einn eða annan hátt. Hann segir um nokkuð viðamikla uppfærslu að ræða að þessu sinni, en innan stjórnar Leikfélagsins séu kraftmiklir og öflugir einstaklingar og samstaða hóps og samhugur geri þessa uppfærslu mögulega. Stjórnin hafi verið einhuga í verkefnavali í ár og telji að þessi uppfærsla muni falla vel í kramið hjá almenningi.
Eftir áramót er stefnt að því að bjóða upp á unglingaleikhús í samstarfi við Dalvíkurskóla, þar sem 15-18 áhugasamir unglingar í byggðarlaginu setja upp verk til almennrar sýningar. Var þessi aðferð reynd á síðasta ári við góðar undirtektir.
Arnar minnir á skemmtilega heimasíðu Leikfélags Dalvíkur og slóðin er www.leikfelagdalvikur.net.
{mos_fb_discuss:2}