Kæru vinir og félagar!

Að afstöðnu mjög velheppnuðu bandalagsþingi á Hallormsstað langar mig að þakka ykkur sem þar voruð ánægjulega samveru og samvinnu um helgina og falleg orð í minn garð. Ykkur, sem ekki áttuð heimangengt sem og þeim heppnu sem voru á Hallormsstað, vil ég þakka afar ánægjuleg samstarf og samveru í bandalagsstarfinu síðustu 15 ár. Ég ákvað fyrir nokkrum dögum síðan að gefa ekki kost á mér til áframhaldandi formannsstarfa og afhenti kyndilinn með ljúfsárum söknuði til Togga (Þorgeirs Tryggvasonar) sem ég veit að mun sinna starfinu með miklum sóma.

 

Það er ánægjulegt að líta til baka á þessi 15 ár sem ég hef starfað fyrir Bandalagið innan stjórnar, mörg skemmtileg verkefni hafa komið upp á borðið og flest höfum við leyst með samstilltu átaki, sem er svo einkennandi fyrir þennan félagsskap. Meðal þeirra verkefna sem ég hef fengist við með öðrum stjórnar-, nefnda- og starfsmönnum hreyfingarinnar eru t.d. kaup á húsnæðinu okkar á Laugarvegi 96, uppbygging skólans, aukið erlent samstarf, tilurð vefjarins leiklist.is, samstarf við stóru leikhúsin (Athygliverðasta áhugaleiksýning ársins í Þjóðleikhúsinu og stuttverkahátíðin Margt smátt í Borgarleikhúsinu). Auk þessa má nefna einþáttungahátíðir, Leikum núna á Akureyri 2000 og 2005, ritun sögu BÍL, erlent samstarf og ferðir á erlendar leiklistarhátíðir og námskeið og margt fleira. Auk allra þessara stóru verkefna, sem ég tel hafa þroskað mig sem manneskju og áhugaleikara, verð ég að telja aðalávinninginn sem þetta starf hefur gefið mér en það eru kynni mín af öllu því dásamlega og hæfilerikaríka fólki sem ég hef kynnst á öllum þessum tíma, fólk sem ég er svo heppin að geta í dag talið til vina minna og hefur kennt mér svo ótal margt.

Ég finn í dag fyrir dálitlum tómleika, enda kannski ekki skrýtið eftir öll þessi ár í innsta hring bandalagsins, en það sem gerir það að verkum að ég get sleppt tökunum með gleði í hjarta er annars vegar að ég veit að formannsembættið verður í góðum höndum og að framkvæmdastjórinn okkar er enginn aukvisi og þau, með stuðningi annara stjórnarmanna og okkar hinna, munu sinna bandalaginu okkar á besta máta.

Ég ætla að nota þetta tækifæri og biðja ykkur sem þetta lesið, að leggja leið ykkar á framboðsskrifstofur flokkana nú í vikunni og minna á nauðsyn þess að hlúð verði vel að áhugaleikhúsinu af hálfu ríkisvaldsins – ef við leggjumst öll á eitt og minnum á okkur, þá er mun líklegra að við getum rekið leikfélögin með reisn og sóma.

Þá vil ég einnig þakka Leikfélagi Fljótsdalshéraðs fyrir frábærar móttökur um helgina, öll umgjörð þingsins var þeim til mikils sóma og kirsuberið á kökuna var auðvitað að þau skyldu vera valin í Þjóðleikhúsið á 40 ára afmælinu sínu!

Að lokum lofa ég (hóta finnst kannski einhverjum;-)) að halda áfram að vera ástríðufullur áhugaleikari og bandalax, ég mun að sjálfsögðu starfa að framgangi bandalagsins hér eftir sem hingað til af áhuga og bestu getu, hlakka til að sjá ykkur öll á Margt smátt í haust!

  • Knúskveðjur,
  • Guðrún Halla Jónsdóttir,
  • fráfarandi formaður Bandalags íslenskra leikfélaga

{mos_fb_discuss:3}