Leikfélagið Sýnir heldur upp á 10 ára afmæli sitt í sumar. Á þessum merku tímamótum vantar fólk til að halda uppi merki félagsins en öll þessi ár hefur verið leikið á sumrin og sýnt úti undir berum himni auk þess að fara í leikferðir um landið. Síðast en ekki síst hefur verið farið í Svarfaðardalinn í tengslum við Fiskidaginn mikla á Dalvík.

Á 10 ára afmælinu auglýsir félagið eftir hugmyndum um sumarstarfið.

Sem dæmi um sýningar félagsins má nefna kristnihátíðarleikritið Nýir tímar sem var frumsýnt í Kjarnaskógi í Eyjafirði, örleikritasýninguna Út í móa sem frumsýnd var í Öskjuhlíð, stórsýninguna Draum á Jónsmessunótt sem frumsýnd var í Elliðaárdalnum og Stútungasögu sem var frumsýnd í Heiðmörk.

Síðastliðið sumar var Máfurinn eftir Tjekhov frumsýndur í Elliðaárdalnum.
Þeir unnendur sumarleiklistar sem hafa áhuga á að vera með eða hafa hugmynd að uppsetningu eru beðnir að hafa samband í gegnum netföngin  gerdursig@simnet.is eða hrundol@internet.is.