Hvað er bingó? Mikið meira en ég hélt að það væri svo mikið er víst. Það eru allir þessir gluggar sem má opna og loka og allar þessar tölur og svo bókstafirnir. Þetta er grunnurinn sem höfundurinn Hrefna Friðriksdóttir, notar í verkinu Bingó, sem sýnt er um þessar mundir í Hjáleigunni í Kópavogi. Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir. Bingó er samstarfsverkefni Hugleiks og Leikfélags Kópavogs, en félögin unnu saman að sýningunni Memento mori sem sló í gegn, en þar var einnig um samstarf Hrefnu og Ágústu að ræða.
Hér koma þær aftur saman og má segja að aftur takist þeim að skilja áhorfendur eftir hugsi á svip, sem er gott.
Verkið, eins og áður sagði, byggist upp í kringum leikinn bingó. Fimm persónur hittast og spila saman þennan einfalda leik, þar sem engin leið er að vita hver vinnur. Bingóstjórinn heldur utan um söguþráðinn og stýrir því hvaða tala kemur upp, eða öllu heldur hvaða saga er sögð hverju sinni. Sagan hleypur til í tíma og rúmi og fylgst er með persónunum fimm, vonum þeirra, ótta og innstu hugsunum. Hrefnu tekst vel til með að halda utan um hverja persónu og uppsetningin öll er unnin af útsjónarsemi og vandvirkni af leikstjóranum þar sem leikhópurinn er vel nýttur til að segja sögu hverrar persónu.
Leikmynd, lýsing og umgjörð sýningarinnar er vel unnin, notaðar eru einfaldar lausnir til að breyta ásýnd leikara, tíma og stað. Bingóspjöld breyttust í bolla, borð í píanó, teygja í boxvöll og svo mætti áfram telja. Einfaldar lausnir sem koma sögunni til skila á áhrifamikinn hátt.
Leikhópurinn stendur sig allur afar vel og myndar sterka heild. Frosta Friðrikssyni, bingóstjórinn sem ýtir við framrás verksins, tekst vel að bregða sér í allra kvikinda líki og oftar en ekki potar hann í persónurnar á óþægilegan máta. Bræðurnir Brynjólfur og Gísli, sem eru beyglaðir hvor á sinn máta, voru vel útfærðir hjá Guðmundi L. Þorvalssyni og Víði Erni Jóakimssyni. Jenný Lára Arnórsdóttir og Erla Dóra Vogler standa sig einnig vel mjög vel í hlutverki flæktra kvenna Ólafíu og Ingibjörgu. Júlía Hannam er yndislega skemmtileg í hlutverki Nönnu, bingóspilara af hjarta og sál.
Viljum við sitja eftir í leikhúsinu eftir sýningu og hugsa, hvað gerðist? Já, ég vill það alveg endilega. Það tekst í þessu verki. Einhversstaðar í verkinu fellur þessi setning: "Ég vil hvergi annarsstaðar vera." Góð setning, hvað viljum við innst inni? Enn og aftur er höfundur að skoða hvað það er sem drífur manneskjuna áfram, hvað stjórnar okkur. Hver er bingóstjórinn þinn? Ert það þú sjálfur? Hvað er það sem við óttumst? Hvað er það sem við þráum? Skelltu þér á Bingó, fattarðu spilið eða fattarðu það ekki? Skiptir ekki öllu, þú ferð allavega að hugsa.
Guðfinna Gunnarsdóttir
{mos_fb_discuss:2}