Laugardaginn 14. apríl n.k hefjast í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu sýningar á brúðuleikritinu um Mjallhvíti í uppfærslu brúðuleikhússins 10 fingra sem Helga Arnalds stjórnar.

Hér er á ferðinni sagan sígilda um Mjallhvíti og dvergana sjö eins og við þekkjum hana flest en í sýningunni leiðir sögukonan, Helga Arnalds börnin í gegnum hana á nokkuð óvenjulegan hátt með töfrabrögðum, myndskyggnum, brúðum, grímum og söng. 

Helga Arnalds hlaut menntun sína í leikhúsháskólanum Instituto del Teatro í Barcelona og í leikhúsháskólanum DAMU í Prag. Hún stundar nú nám við Listaháskóla Íslands í myndlist.

10 fingur er eins manns ferðaleikhús sem var stofnað árið 1994 af Helgu Arnalds og hefur ferðast milli nánast allra skóla og leikskóla í landinu auk þess að fara í ótal leikferðir erlendis. Þá hefur Helga í gegnum tíðina fengið til samstarfs marga landsþekkta listamenn á sviði myndlistar, leiklistar og tónlistar. Allar sýningar leikhússins eru mjög myndrænar og eru byggðar upp með brúðum, grímum og skuggaleikhúsi.

Hér eru nokkur dæmi um viðbrögð leikhúsgesta:

,,Ekkert hik eða fum er á þessari færu brúðuleikkonu sem hlýtur að vera í hópi þeirra bestu hér á landi og þótt víðar væri leitað…"

Soffía Auður Birgisdóttir, Morgunblaðið.

,,Best af öllu er að heyra hana flytja textann sinn fyrir börn. Þar fer ekkert orð forgörðum og innlifun hennar og ákafi smitar áheyrendur, hvort sem þeir eru þriggja ára, þrítugir eða tvisvar sinnum það, svo að þeir sitja hugfangnir og fylgjast með.”

Silja Aðalsteinsdóttir DV

,,Ég hef sjaldan orðið eins yfir mig hrifin. Mjallhvít var fegurð út í gegn. Sýningin var svo yndisleg að ég varð lítil aftur og gat ekki tára bundist…"

Hallveig Ingimarsdóttir, leikskólastjóri á Bjarkatúni, Djúpavogi.

{mos_fb_discuss:2}