Nýtt leikverk eftir Akureyringinn Þorvald Þorsteinsson, Lífið notkunarreglur var frumsýnt síðasta föstudag hjá Leikfélagi Akureyrar. Einvalalið listrænna stjórnenda stýrir leikhópi LA og útskriftarárangi Leiklistardeildar Listaháskólans en sýningin er sett upp í samstarfi þessara aðila.
Megas hefur samið tónlist við verkið sem m.a. inniheldur 10 ný sönglög við texta Þorvaldar. Magga Stína útsetur, stýrir tónlistinni í sýningunni og tekur þátt í flutningi verksins. Kjartan Ragnarsson leikstýrir sýningunni. Leikskáldið Þorvaldur hannar einnig leikmynd og búninga en þetta er í fyrsta skipti sem hann tekst á við það í leikhúsi, þó hann sé þekktur myndlistarmaður. Sýnt er í Rýminu, nýju leiksviði LA. Þegar er uppselt á 12 sýningar verksins.
Lífið notkunarreglur er ævintýrið um okkur öll – fullt af hlýju, tónlist og leiftrandi húmor. Hvað var það nú aftur sem við áttum að gera við þetta blessaða líf? Erum við kannski að misskilja þetta allt saman? Eða er ástin ef til vill svarið sem allt snýst um? Litríkur hópur fólks stendur frammi fyrir áleitnum spurningum um framtíðina og eigin hlutverk í lifinu, spurningunum sem engin virðist geta svarað svo vel sé, enda fylgir sjaldnast bæklingur með börnunum sem fæðast í þennan heim. Hér er fjallað um sundurleitan samtíma og óvissa framtíð á svo mannlegum og hrífandi nótum að allir verða ríkari á eftir.
Sýningin er unnin í samvinnu við útskriftarárgang leiklistardeildar Listaháskóla Íslands og er lokaverkefni þeirra við skólann.
Meðal rómaðra verka Þorvaldar eru …and Björk of course, Blíðfinnur og Skilaboðaskjóðan.
Kjartan er einn reyndasti leikstjóri landsins og meðal eftirminnilegra sýninga hans eru Sjálfstætt fólk, Þrúgur reiðinnar og Land míns föður. Þetta er fyrsta sýning beggja fyrir LA.
Megas hefur samið tónlist við verkið, þar á meðal 10 ný sönglög en tónlistarstjóri er Magga Stína. Hún hefur samið hljóðmynd verksins ásamt Kristjáni Edelstein. Leikmynd og búninga hannar Þorvaldur sjálfur og ljósahönnuður er sem fyrr hjá LA, Björn Bergsteinn Guðmundsson.
Leikarar: Guðjón Davíð Karlsson, Ólafur Steinn Ingunnarson, Páll Sigþór Pálsson, Þráinn Karlsson, Vignir Rafn Valþórsson, Sigrún Huld Skúladóttir, Tinna Lind Gunnarsdóttir, Sara Marti Guðmundsdóttir, Magnús Guðmundsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Bjarni Snæbjörnsson, Anna Svava Knútsdóttir og Hallgrímur Ólafsson.