Það er alltaf skemmtileg tilfinning að fara í leikhús og hafa ekki hugmynd um hvað bíður manns. Þó að vissulega geti brugðið til beggja vona þá er bara eitthvað svo heillandi við óvissuna, maður er einhvern veginn frjáls undan öllum fyrirfram væntingum og öll skilningarvit fara á fullt að meðtaka minnstu vísbendingar um hvað í vændum er.

En það er líka vandinn við að fjalla um svona sýningar að maður vill helst ekki eyðileggja ánægjuna fyrir væntanlegum sýningargestum með því að segja of mikið frá því sem framundan er, sérstaklega ef upplifunin hefur verið ánægjuleg. Hjá þessu verður þó ekki komist í umfjöllun og því ættu þeir sem vilja sjá sýninguna og vita ekki neitt, alls ekki að lesa meira. Reyndar hefðu þeir ekki átt að lesa þetta langt ef út í það er farið…

En alla vega. Sýningin Allt og ekkert er ekki eiginleg leiksýning í hefbundinni merkingu þess orðs. Ef líkja má henni við eitthvað sem ég hef séð á sviði íslensks leikhúss á þessu ári dettur mér helst í hug sýning Hugleiks, Einu sinni var… . Í báðum þessum sýningum er unnið með sögumannsformið, þ.e. það ekki verið að leika heldur segja áhorfendum sögur, og það sannar sögur af persónulegri upplifun fólks (eða af forfeðrum þess eins og í Hugleikssýningunni). En þar með líkur samlíkingunni. Á meðan sýning Hugleiks var öguð, fókuseruð og bar skýrt mark leikstjóra er Allt og ekkert afslöppuð, kaótísk og í raun sjást ekki merki neinnar eiginlegrar leikstjórnar. Leikendur og áhorfendur sitja innan um hvora aðra og nema að þú þekkir vel til í LK, veistu ekki hvort manneskjan við hliðina á þér er leikari eða áhorfandi.

Ein helsta ástæðan fyrir því hversu ófókuseruð sýning er að það er ekkert sem tengir saman sögurnar sem sagðar eru fyrir utan það að þær eru af atburðum úr fortíð sögumanna, allt frá því að vera úr bernsku til þess að vera úr allra nánustu fortíð. Þær eru ýmist spaugilegar eða spennandi (afar mismikið þó) og er lögð meiri áhersla á spaugið fyrir hlé en spennuna eftir hlé. Einnig er það lýti á sýningunni að sögumenn áttu það til að tafsa talsvert og jafnvel að vera við það að springa úr hlátri yfir eigin sögum sem dregur mikið úr áhrifamætti frásagnarinnar. Það var líka talsverður munur á milli þátttakenda í færni í sögumannslistinni og greinilegt hverjir voru leikreyndir og hverjir ekki.

En þrátt fyrir ýmsa hnökra og stefnuleysi Alls og ekkerts, hafði undirritaður býsna gaman af sýningunni á köflum. Hún rann ágætlega og það hvað hún var lausbeisluð varð til þess að ýmislegt „spontant“ gerðist sem vakti kátínu sýningargesta. Sumir sögumanna áttu mjög fína spretti og tókst oft að gera merkilega mikið úr á köflum rýru efni og það er jú m.a. það sem góð sögumennska snýst um. Og nú fer hver að vera síðastur að sjá sýninguna því síðasta sýning er núna um helgina.

Ármann Guðmundsson

 {mos_fb_discuss:2}