Starfstími skólans á þessu ári er frá 9. til 17. júní að Húsabakkaskóla í Svarfaðardal og helgarnar 12. til 14. og 26. til 28. október í Reykjavík.
Boðið er upp á þrjú námskeið í Svarfaðardalnum, Leiklist I, kennari Ágústa Skúladóttir, sérnámskeið fyrir leikara, kennari Stephen Harper og sérnámskeið fyrir leikstjóra, kennari Egill Heiðar Anton Pálsson. Í október verða tvö námskeið í leikhúsförðun, kennari Gréta Boða.
Skráning á Húsabakka-námskeiðin hefst 15. mars og lýkur 15. apríl. Skráning á förðunarnámskeiðin hefst 15. mars og lýkur 15. september. Umsóknir sendist á netfangið info@leiklist.is. Takið fram hvaða námskeið er sótt um, nafn umsækjanda, kennitölu, síma, heimilisfang og póstnúmer.
Sérnámskeið í leikstjórn
Kennari Egill Heiðar Anton Pálsson
Þátttökugjald: kr. 45.000
Tími: 9. til 17. júní 2007
Staður: Húsabakkaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 15. apríl
Egill Heiðar Anton Pálsson útskrifaðist sem leikari úr Leiklistarskóla Íslands 1999 og sem leikstjóri úr Statens Teaterskole í Danmörku 2002. Hann hefur leikstýrt í mörgum leikhúsum víða um lönd, m.a. Schaubuehne í Berlín, City Theater í Stokkhólmi, Det Kongelige Teater í Kaupmannahöfn, Theater University í Helsinki, Þjóðleikhúsinu okkar, hjá Vesturporti og leiklistardeild Listaháskólans svo eitthvað sé nefnt. Egill starfar í vetur sem leiklistarkennari við Listaháskóla Íslands og Statens Teaterskole í Danmörku og sem leikstjóri við Konunglega leikhúsið í Kaupnmannahöfn. Þetta er í fyrsta sinn sem hann kennir við skólann okkar.
Námskeiðslýsing:
Námskeiðið er ætlað þeim sem sótt hafa Leikstjórn I og II og/eða framhaldsnámskeið eða hafa umtalsverða reynslu af leikstjórn.
Námskeiðið er kynning á kerfum rússneska leikstjórans og leikarans Konstantín Stanislavskji og eftirrennara hans. Unnið er með tvær kenningar hans; Kerfi líkamlegra gerða, sem er vinna leikarans og Greiningarkerfi gerða, sem er vinna leikstjórans. Þessi tvö kerfi mynda eina heild í leikhúsvinnu ásamt því að vera undirstaða í vestrænni leiklist.
Unnið verður með hugtök og heiti í formi fyrirlestra eftir hádegishlé á daginn en fyrir hádegi verður unnið á verklegan hátt með þessi hugtök og virkni þeirra.
Áður en námskeiðið hefst þurfa nemendur að lesa nokkur leikrit sem unnið verður með.
Leiklist I Byrjendanámskeið fyrir leikara
Kennari Ágústa Skúladóttir
Þátttökugjald: kr. 45.000
Tími: 9. til 17. júní 2007
Staður: Húsabakkaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 15. apríl – Biðlisti
Ágústa Skúladóttir lærði leiklist hjá Monicu Pagneux í Paris og Philippe Gauliere í London. Einnig tók hún mastersnámskeið hjá Theatre de Complicite, John Wright, David Glass og Bruce Meyers. Hún starfaði í nokkur ár í London sem leikkona og uppistandari og er einn af stofnendum leikhópsins Icelandic Take Away Theatre og hefur unnið að 10 sýningum félagsins sem leikari, höfundur eða leikstjóri. Ágústa er um þessar mundir fastráðin leikstjóri hjá Þjóðleikhúsinu og leikstýrði þar m.a. Klaufum og kóngsdætrum sem fékk Grímuna sem besta barnasýningin 2005. Síðustu uppsetningar Ágústu hjá Þjóðleikhúsinu eru Halldór í Hollywood, Stórfengleg, Eldhús eftir máli og Umbreyting. Hún leikstýrði einnig Memento mori hjá Leikfélagi Kópavogs og Hugleik sem valin var framlag Íslands á NEATA-hátíðina 2006. Þetta er í fjórða sinn sem Ágústa kennir við skólann.
Námskeiðslýsing:
Námskeiðið er grunnnámskeið fyrir leikara og þeir ganga fyrir sem ekki hafa sótt Leiklist I.
Næsta sumar verður haldið framhaldsnámskeið sem byggir á þessu námskeiði.
Á námskeiðinu verður farið í grunnatriði í list leikarans.
Unnið verður með að leysa úr viðjum frumorku, einlægni og sköpunargleði leikarans, samband hans við sjálfan sig, meðleikara og áhorfendur. Unnið verður með líkamsbeitingu og textameðferð og einnig verður kíkt á
mismunandi leikaðferðir eða leikstíla. Mikilvægi liðsheildar hóps verður ríkjandi þáttur námskeiðsins því þegar hlustun og leikgleði ráða ríkjum getur allt gerst!
Mottó námskeiðsins: Einn fyrir alla allir fyrir einn!!
Sérnámskeið fyrir leikara
Kennari Stephen Harper
Þátttökugjald kr. 45.000
Tími: 9. til 17. júní 2007
Staður: Húsabakkaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 15. apríl – Biðlisti
Stephen Harper er breskur leikari og leikstjóri sem lærði leiklist við Middlesex University. Hann hefur auk þess aflað sér menntunar hjá John Wright, Improble Theatre, Complicite Theatre og The Right Size Theatre og unnið með fjölda annarra spennandi leikhópa í Bretlandi, t.d. Told by an Idiot. Hann kom til Íslands árið 2003, lék í Common Nonsense í Borgarleikhúsinu, stýrði námskeiði í Þjóðleikhúsinu og hélt námskeið fyrir áhugaleikara á höfuðborgarsvæðinu í samvinnu við John Wright. Stephen hefur haldið fjölda námskeiða í Bretlandi, m.a. hjá Middlesex University, Rose Bruford College og City and Islington College. Stephen hefur lagt fyrir sig ýmsar aðferðir leikhússins, svo sem Commedia dell arte, grímuleikhús, trúðleik, spuna, devised leihús og physical comedy.Þetta er í fyrsta sinn sem Stephen kennir við skólann okkar.
Námskeiðslýsing:
Sérnámskeið fyrir leikara.
Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa sótt leiklistarnámskeið á vegum skólans eða hafa umtalsverða reynslu af leiklist. Kennarinn talar ensku en gert er ráð fyrir að nemendur megi tjá sig á íslensku í spuna og vinnu með texta.
Á námskeiðinu verður unnið með þekkta texta sem verða kynntir síðar. Í fyrstu verður unnið með ákveðna tegund af heilgrímum. Unnið verður út frá líkamstjáningu, kyrrð, fókus og látbragði og unnið með að búa til persónur og senur. Þá verða grunnatriði leikhúshefðarinnar Commedia dell arte skoðuð sérstaklega en þessi leikstíll krefst mikillar orku í tali og líkamstjáningu. Unnið verður með stílinn, tempó, helstu karaktera Commedia og aðstæður. Hópurinn mun leita að eigin Commedia leikstíl og skapa og finna nýjar leiðir til að vinna með hefðbundnar senur og aðstæður sem sagt Commedia with a modern twist!
Byrjendanámskeið í leikhúsförðun
Kennari Gréta Boða
Þátttökugjald: kr. 12.000
Tími: 12. til 14. október 2007
Staður: Laugavegur 96, II hæð
Skráning hefst 15. mars og lýkur 15. september
Gréta Boða er hárkollu- og förðunarmeistari. Hún lærði fagið í Þjóðleikhúsinu og London. Hún hefur 35 ára reynslu af vinnu í leikhúsi og sjónvarpi, við bíómyndir og auglýsinga- og ljósmyndaförðun. Gréta hefur oft áður kennt förðun og hárkollugerð við skólann.
Um byrjendanámskeiðið:
Grunnförðun í leikhúsi, val á litum og efnisnotkun, hreinsun og umgengni er efni þessa námskeiðs. Kennslan er fræðileg og verkleg, nemendur yfirvinna feimnina við liti og efni með því að farða hverjir aðra undir leiðsögn kennarans.Notaðar verða förðunarvörur frá Grimas og Kryolan.
Framhaldsnámskeið í leikhúsförðun
Kennari Gréta Boða
Þátttökugjald: kr. 14.000
Tími: 26. til 8. október 2007
Staður: Laugavegur 96, II hæð
Skráning hefst 15. mars og lýkur 15. september
Námskeiðið er sjálfstætt framhald af fyrra förðunarnámskeiðinu, ætlað þeim sem einhverja reynslu hafa af förðun fyrir leikhús og/eða hafa sótt byrjendanámskeið.
Kennd verður karakterförðun, unnið með latex, skalla, krephár og fleiri efni sem notuð eru til að breyta og bæta ásýnd leikarana á sviðinu.Kennt verður að búa til skallahettur, setja þær á og farða. Einnig að búa til skegg, augabrúnir og barta úr kréphári og líma það á. Latex, Tuplast og fleira notað til að gera fólk eldra, ásamt förðuninni sjálfri. Notaðar verða förðunarvörur frá Grimas og Kryolan.