Leikfélagið Óríon frumsýnir leikritið Ó, fagra veröld eftir Anthony Neilson fimmtudaginn 22. ágúst. Sýnt er í leikhúsi Leikfélags Kópavogs að Funalind 2 í Kópavogi. Leikstjórn er í höndum Önnu Írisar Pétursdóttur. Með uppsetningunni rætist langþráður draumur leikfélagsins, enda hefur sýningin verið á radar félagsins síðan árið 2013.

Ó, fögru veröld mætti lýsa sem einskonar fullorðins útgáfu af Lísu í Undralandi. Við fylgjum Lísu Jónsdóttur í heimsókn hennar til ævintýralandsins Sundralands þar sem allt getur gerst. Hún er stödd í þessari undraveröld í leit að klukkustund sem hún hefur glatað. Í leitinni rekst Lísa á fjölda skrautlegra persóna í ennþá skrautlegri aðstæðum en fljótt fær áhorfandinn á tilfinninguna að ekki sé allt með felldu. Ó, fagra veröld veitir okkur einstaka innsýn inn í innra líf manneskju í geðrofi. Verkið fjallar af mikilli nærgætni um efnið, og sérstaklega má benda á að áherslan er lögð á innra líf Lísu en ekki ytra umhverfið. Áhorfendur fá því að upplifa það sem hún upplifir.

Áhugaverð og fersk umfjöllun höfundarins um geðrof er hluti af því sem dró leikhópinn að því. Markmið Leikfélagsins Óríon er að sýna fjölbreytileika mannsins í öllum sínum verkum. Hópurinn leggur sérstaklega áherslu á jaðarhópa sem hafa hingað til ekki fengið pláss í sviðsljósinu. Leikfélagið Óríon var stofnað 2012 af Önnu Írisi Pétursdóttur sem þá var menntaskólanemi. Leikfélagið er sjálfstætt starfandi og er opið öllu ungu fólki sem hefur áhuga á leiklist og öðru því sem við kemur uppsetningu leikverka.

Miðasala er á Tix.is og nánari upplýsingar um sýninguna eru á Facebook.

Félagið sjálft er einnig á Facebook og Instagram.