„Höfundi og leikstjóra tekst að flétta saman þessum litlum frásögnum af töluverðu listfengi svo úr verður fínasta leiksýning.“ Gagnrýnandi Leiklistarvefsins fór á frumsýningu á Beðið eftir go.com air hjá Mosfellingum á föstudag.

Leikfélag Mosfellsveitar frumsýndi Beðið eftir go.com air föstudaginn 1. nóvember. Verkið er eftir Ármann Guðmundsson og er hann einnig í hlutverki leikstjóra. Stór hópur leikara og tæknimanna auk annarra tekur jafnframt þátt. Margir hafa farið flatt á því að leikstýra eigin verkum enda er sú hætta ávallt fyrir hendi að leikstjórinn hafi ekki það gagnrýna viðhorf til verksins sem þörf er á. Að þessu sinni gengur blandan þó að langmestu leyti upp.

Aðstæður verksins eru flestum að góðu kunnar og víst að margir hafa upplifað svipaða hluti á ferðalögum og hér er sagt frá. Sögurnar eru líka margar hverjar fengnar úr reynslusafni hópsins og annarra aðstandenda sýningarinnar . Baksviðið er í stuttu máli það að hópur Íslendinga er á flugstöð í útlöndum á leið heim og lendir í ýmsum hrakningum þar. Seinkun á flugi með tilheyrandi pirringi, samskipti við starfsmenn fugfélagsins og öryggisverði auk innbyrðis átaka í hópnum er innihald þessarar sýningar sem var sjaldan dauf, yfirleitt bráðskemmtileg og á köflum frábær.

Upphafssenan var frumleg og kraftmikil. Skemmtilegar hraðabreytingar og góð „kóreógrafía“ mynduðu skemmtilegt andrúmsloft og gáfu tóninn fyrir það sem á eftir kom. Persónur eru síðan kynntar til sögunnar ein af annarri og kennir þar ýmissa grasa. Drykkfelld móðir og dóttir hennar sem hafa verið á ferðalagi fyrir fermingarpeninga stúlkunnar, kerfiskall úr Umhverfisráðuneytinu, ungt par og vinur þeirra, ákaflega flughræddur maður og fleiri, mæta á völlinn til þess eins að bíða eftir brottför flugvélar sem virðist aldrei ætla að fara í loftið.
Sýningin fer rólega af stað og áhorfendur fá smám saman að kynnast persónunum, einkennum þeirra og bakgrunni. Meðan þeir bíða lenda þeir í ýmsum uppákomum ýmist innbyrðis eða í samskiptum við starfsmenn flugvallarins og lágfargjaldaflugfélagsins sem þeir voru svo óheppnir að skipta við. Höfundi og leikstjóra tekst að flétta saman þessum litlum frásögnum af töluverðu listfengi svo úr verður fínasta leiksýning. Óvæntar og undarlegar senur í bakgrunni (þ.á.m. ein fengin að láni hjá Monty Python) voru oft bráðskemmtilegar og gáfu því sem gerðist í forgrunni aukið gildi.

Frammistaða leikara var nokkuð misjöfn en sumir nutu sín vel og áttu jafnvel stórleik á köflum. Pétur R. Pétursson var bráðskemmtilegur sem stereótýpiskur spánverji að nafni Jesus. Suðrænt „temperamentið“, fyrirlitningin á þessum geggjuðu íslendingum og innihald tösku hans vakti á köflum mikla kátínu hjá áhorfendum. Herdís Þorgeirsdóttir var sannfærandi í hlutverki Rögnu og þeir Ragnar Valsson og Hjalti Kristjónsson áttu góða spretti sem tveir stuðboltar sem virðast meta hvert fyllerí þess meira, því minna sem þeir muna eftir því. Stefán Bjarnarson var þó að mínu mati fremstur í flokki leikara. Túlkun hans á ráðuneytiskallinum var stórgóð og atriðið á salerninu var eftirminnilegasta sena verksins þó hún væri örlítið á skjön við sýninguna.

Tæknilegir þættir voru með ágætum og ágæt tónlist þeirra Björns Thorarensens og Eggerts Hilmarssonar var yfirleitt smekklega notuð. Nokkrir dauðir punktar eru í sýningunni og hefði mátt skera niður og jafnvel sleppa einstaka atriði. Einnig vantaði meiru snerpu á köflum en hægt er að gera ráð fyrir að það lagist er sýningum fjölgar. Heilt yfir verður að segjast að sýningin hélt áhorfendum vel við efnið og erti á köflum hláturtaugar þeirra svo um munaði. Endir verksins er óvæntur og bráðsnjall. Óþarfa málalengingar og útskýringar rýrðu áhrifamátt hans þó nokkuð. Var það eitt af fáum skiptum þar sem leikstjóri hefði mátt hafa vit fyrir höfundi.
Beðið eftir go.com air er í stuttu máli besta sýning sem undirritaður hefur séð hjá Mosfellingum í nokkur ár. Ármann Guðmundsson hefur skrifað gott verk sem Sartre sjálfur hefði mátt vera ánægður með og sett það á svið af öryggi og fagmennsku. Það er óhætt að óska honum og hópnum til hamingju með árangurinn.

Hörður Sigurðarson