Verkið 50 ways to leave your lover verður frumsýnt í Silfurtunglinu í Austurbæ 26. janúar. Þetta er einleikur sem fjallar um uppgjör ungs manns á átakanlegum atburði í lífi hans, ástinni sem hann kynntist og einverunni sem hann upplifir eftir á. Sagan er sögð á tveimur skeiðum í lífi hans, annarsvegar fyrir dauða hans og hinsvegar eftir.
Ungi maðurinn reynir að skilja atburðinn sem átti sér stað á sama tíma og hann veltir fyrir sér örlögum manneskjunnar sem hann varð ástfanginn af. Verkið varpar fram spurningum um hvað verður um manneskjuna þegar hún upplifir mikla einsemd og óréttlæti af völdum samfélagsins. Hvað verður um einmanna sál þegar hún er svipt frelsinu og er látin gjalda fyrir verknað sem hún ekki framdi. Geta allir orðið að ófreskjum ef þeir eru settir í ákveðnar aðstæður? 50 ways to leave your lover er leikinn af Ólafi S.K. Þorvaldz leikara, en hann er einnig höfundur. Verkið var fyrst sett upp í London undir nafninu Memoirs árið 2003. Þá var það leikið af Stian Olderkjaer og Trevor Bishop undir leikstjórn Ólafs. Ólafur þýddi verkið og endurskrifaði, með það í huga að setja það upp með einum leikara. Leikstjóri verksins nú er Agnar Jón Egilsson.
Ólafur S.K. Þorvaldz útskrifaðist frá Arts Educational School of Acting í London árið 2003. Ólafur stofnaði leikhópinn Children of Loki árið 2003 á meðan hann var enn í námi. Children of Loki starfaði í 2 ár og setti upp 3 sýningar allar eftir Ólaf. Tvær þeirra voru settar upp í London og ein í Edinburgh. Allar sýningarnar hlutu mjög góðar viðtökur, bæði áhorfenda og gagnrýnenda. Ólafur fluttist til Íslands í byrjun árs 2005. Ólafur vann tvær sýningar með sjálfstæðum leikhópum sem sýndar voru í Borgarleikhúsinu. Sú fyrri var American Diplomacy í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar og sú síðari Riðið inní Sólarlagið í leikstjórn Odds Bjarna Þorkelssonar. Ólafur lék einnig í verðlaunaleikritinu Hafið Bláa í leikstjórn Agnars Jóns Egilssonar. Ólafur hefur leikstýrt og sett upp sýningar, allar skrifaðar af honum, með framhaldsskólum og sjálfstæðum leikhópum. Ólafur hefur einnig unnið við kennslu, með börnum og unglingum, hjá Barna- og unglingaleikhúsi Austurbæjar. Á sama tíma hefur Ólafur unnið við talsetningar og leik í útvarpsleikhúsi og auglýsingum, auk þess að skrifa og leikstýra auglýsingum og tónlistarmyndböndum.
Miðasala er í Austurbæ frá 13:00-17:00 og í síma 5514700, einnig er hægt
að nálgast miða á midi.is. Miðaverð er kr. 1500