Hrund Ólafsdóttir skrifar:
Leiksýningar sem ég skrifaði gagnrýni um fyrir Morgunblaðið á síðastliðnu leikári voru 37 talsins. Auk þess sá ég 6 sýningar sem einnig verða lagðar undir Tréhausinn. Sjálf kom ég að tveimur sýningum til viðbótar og er því vanhæf til þess að dæma þær.
Besta leiksýning
Þú veist hvernig þetta er
Stúdentaleikhúsið
Leikstjóri: Jón Páll Eyjólfsson
Sýning Jóns Páls og Stúdentaleikhússins er ágeng og beitt. Hún er unnin af hugrekki og ólgandi krafti þar sem sést að hver einasti leikari í stórum hópnum fer fram af þörf til þess að sýna og segja frá því hvernig er að lifa í samfélagi okkar. Jón Páll vinnur markvisst með samfélagslega sýn og notar til þess þau meðul sem þarf. Aðall sýningarinnar er þó ekki síst hvernig hópurinn vinnur sem einn maður, hvort sem um er að ræða hópatriði eða atriði þar sem stakar persónur eru sýndar. Einlægnin snerti mig líka mikið, í þau þrjú skipti sem ég horfði á sýninguna, en misreyndir leikararnir áttu auðvelt með marga skala persónusköpunar.
Aðrar sýningar sem komu til greina sem besta leiksýning voru Memento Mori í leikstjórn Ágústu Skúladóttur hjá Hugleik og Leikfélagi Kópavogs; Stundarfriður hjá Leikfélagi Hörgdæla, leikstýrt af Sögu Jónsdóttur; Ávaxtakarfan og Þrek og tár hjá Leikfélagi Sauðárkróks en báðum leikstýrði Jón Stefán Kristjánsson; Patataz hjá Hugleik sem Bergur Þór Ingólfsson leikstýrði; Dýrðlegt fjöldasjálfsmorð hjá Leikfélaginu Landsleik, einnig leikstýrt af Bergi Þór; Dýragarðssaga hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar sem leikstýrt var af Halldóri Magnússyni; Davíð Oddsson Súperstar hjá Leikklúbbnum Sögu í leikstjórn sama Jóns Páls og svo auðvitað Náttúran kallar hjá Leikfélagi Selfoss í leikstjórn Sigrúnar Sólar Ólafsdóttur.
Besta leikstjórn
Ágústa Skúladóttir
Memento Mori – Hugleikur og Leikfélag Kópavogs
Ágústa Skúladóttir er einfaldlega snillingur í að vinna sýningar þar sem leikhópurinn vinnur sem ein manneskja að því að segja sögu eða sögur og þar sem líkamar leikaranna eru notaðir á allan hugsanlegan máta til að tákna ólíklegustu hluti, aðstæður, dýr, andrúmsloft og hvað eina. Ég fékk alltaf gæsahúð, í öll fjögur skiptin sem ég sá Memento Mori, yfir samhæfingu og samstillingu leikaranna sem þó sýndu einnig, hver og einn, hve færir þeir eru í einstaklingsleik.
Aðrir leikstjórar sem nálgast Ágústu eru þessir: Jón Páll Eyjólfsson fyrir Þú veist hvernig þetta er og Davíð Oddsson Súperstar; Saga Jónsdóttir fyrir Stundarfrið; Jón Stefán Kristjánsson fyrir Ávaxtakörfuna og Þrek og tár; Halldór Magnússon fyrir Dýragarðssögu; Björk Jakobsdóttir fyrir Múlan Rús; Helga Vala Helgadóttir fyrir Glæsibær vs. Mjóddin; Bergur Þór Ingólfsson fyrir Patataz og Dýrðlegt fjöldasjálfsmorð; Oddur Bjarni Þorkelsson fyrir Sambýlinga, Guðjón Sigvaldason fyrir Bugsy Malone og svo auðvitað Sigrún Sól Ólafsdóttir fyrir Náttúruna sem kallaði á Selfossi.
Besta leikkona í aðalhlutverki
Júlía Hannam
Patataz – Hugleikur
Ég hef aldrei séð Júlíu Hannam leika jafn vel og móðurina í Patataz og hef ég þó séð hana leika mörg hlutverk og það prýðilega. Júlía hvíldi einstaklega vel í hlutverki sínu og sýndi áhorfendum undirtexta verksins í heild sinni, hún birti heilt líf biturrar konu og lokaðrar en sýndi jafnframt á þann absúrda hátt sem verkið bauð upp á hvernig fólk leikur hlutverk sín í nokkuð firrtu samfélagi.
Aðrar leikkonur sem voru eftirminnilegar í aðalhlutverki voru þessar: Hulda B. Hákonardóttir í Enginn með Steindóri; Íris Magnúsdóttir í Náttúran kallar; Fanney Valsdóttir í Stundarfriði; Dagbjört Elva Jóhannesdóttir í Þreki og tárum og Ávaxtakörfunni; og Sigurlaug Vordís Eysteinsdóttir í Þreki og tárum.
Besti leikari í aðalhlutverki
Sigurður Illugason
Sambýlingar – Leikfélag Húsavíkur:
Það var mögnuð upplifun að sjá Sigurð Illugason breytast í hinn geðfatlaða Arnold, órólegan og smámunasaman, kíminn og sérvitran. Hann kom gæsahúðinni kirfilega af stað hjá mér og það er auðvelt að framkalla hana þegar ég rifja upp hvernig Sigurður birti líf Arnolds með því að vera fullkomlega til staðar í smæstu atriðum, vera heill og sannur í leikhópnum og vekja stöðugt djúpa samúð með þessari persónu sem á allt undir því að hlutirnir séu í föstum skorðum.
Aðrir karlleikarar sem slógu í gegn í aðalhlutverki: Tryggvi Haraldsson í Stundarfriði og Albert Sölvi Óskarsson í Þreki og tárum.
Besta leikkona í aukahlutverki
Huld Óskarsdóttir
Memento Mori – Hugleikur og Leikfélag Kópavogs:
Huld Óskarsdóttir er náttúrlega ein af okkar bestu leikurum en sem barnslega konan í Memento Mori slær hún allt út. Það er að vissu leyti rangt að taka einn leikara út í sýningunni þar sem hún byggir á hópnum. Hins vegar er leitun að leikurum sem eru svo vakandi og tilbúnir í hverri taug, hverjum vöðva og hverri heilafrumu en svo er um Huld. Einlægninni er viðbrugðið sem og líkamsbeitingunni og þokkanum.
Hér kemur svo langur listi af konum í svokölluðum aukahlutverkum: María Gunnarsdóttir í Taktu lagið Lóa; Júlía Hannam í Enginn með Steindóri; Lilja Nótt Þórarinsdóttir í Patataz; Íris Baldvinsdóttir í Þreki og tárum; Vigdís María Hermannsdóttir í Stundarfriði; Ingibjörg Sólveig Halldórsdóttir í Góðverkin kalla; Sóley Bergmann Kjartansdóttir í Járnhausnum og Erla Björk Sigmundsdóttir í Ævintýrum Þumalínu.
Besti leikari í aukahlutverki
Gunnar Björn Guðmundsson
Leikfélag Hafnarfjarðar:
Dýragarðssaga
Í hlutverki Peters í hinu marguppsetta verki Edwards Albee sló Gunnar Björn Guðmundsson í gegn. Hann hvíldi ákaflega vel í hlutverki hins ofur venjulega heimilisföður og fyrirvinnu sem á sínar föstu stundir með góða bók í almenningsgarðinum. Viðbrögð hans og trúgirni gagnvart Jerry og sársauki hans í lokin yfir atburðunum voru svo vel unnin að leitun er að öðru eins.
Aðrir karlleikarar sem léku aukahlutverkin sín svokölluðu einkar vel voru: Einar Þór Einarsson í Enginn með Steindóri; Ívar Björnsson í Stundarfriði; Garðar Geir Sigurgeirsson í Járnhausnum; Guðmundur Erlingsson í Patataz; Gunnsteinn Sigurðsson í Klerkum í klípu; og Jóhannes G. Sigurðsson í Múlan Rús.
Nýtt handrit
Björn Margeir Sigurjónsson
Hugleikur – Patataz
Verkið er vel skrifað og spennandi, það hefur þétta framvindu, er alvarlegt og ögrandi, tekur á viðkvæmum samfélagsmálum og samtölin eru lipur og lifandi. Þó að farið væri of bratt inn í dramatísk átök og uppgjör og þau dregin heldur á langinn sýnir Björn Margeir hér að hann er mjög efnilegt leikskáld.
Ný þýðing
Þórunn Gréta Sigurðardóttir
Leikfélag Hafnarfjarðar:
Dýragarðssaga
Leikritið er lipurlega þýtt hjá Þórunni Grétu og málið fallegt og eðlilegt.
Besta leikmynd
Gunnar Björn Guðmundsson
Leikfélag Hafnarfjarðar:
Dýragarðssaga
Ótal þræðir í grænum og gulrauðum tónum sem tákna eiga skóg, tré, garð eða þá vegginn sem lokar úti hættulegan heim eru með því frumlegasta og fallegasta sem ég hef séð í leikmynd að ótöldum einfaldleikanum sem fólst í því að hafa aðeins tvo bekki innan þráðanna á svörtu gólfinu.
Aðrir leikmyndahönnuðir sem höfðu áhrif á mig voru þessir: Þórarinn Blöndal með Stundarfrið; Jón Páll Eyjólfsson með Þú veist hvernig þetta er; Sigrún Sól Ólafsdóttir með Náttúruna; Jón Stefán Kristjánsson og félagar með Þrek og tár og Ávaxtakörfuna; Björn Gunnlaugsson og félagar með Bláa hnöttinn.
Bestu búningar
Hrefna Friðriksdóttir
Hugleikur og Leikfélag Kópavogs:
Memento Mori
Búningar Hrefnu voru fallegir og náttúrulegir, tímalausir og mjúkir; nútimalegir og gamaldags í senn og alveg í stíl við efnistök hennar sem höfundur verksins.
Búningahönnuðir aðrir sem efni er í: Sigrún Sól Ólafsdóttir með Náttúruna; nemendur FG með Múlan Rús og Jón Páll Eyjólfsson með Þú veist hvernig þetta er og Davíð Oddsson Súperstar.
Besta lýsing
Kjartan Þórisson
Leikfélag Hafnarfjarðar:
Dýragarðssaga
Lýsing Kjartans lék einstaklega vel um þræði Gunnars Björns og Halldórs Magnússonar leikstjóra, lokuð en óræð, falleg en dularfull.
Aðrir lýsingameistarar: Guðbrandur Ægir Ásbjörnsson í Þreki og tárum; Magnús Helgi Kristjánsson í Múlan Rús; Eyjólfur Hjálmsson og félagar í Blá hnettinum.
Besta tónlist
Björn Thorarensen
Memento Mori – Hugleikur og Leikfélag Kópavogs:
Það var krassandi hvernig sönglög sem spunnin voru af hópnum, frumsamin tónlist Björns, þekkt lög og önnur minna þekkt mynduðu tón- og hljóðmynd sem samræmdist svo vel aðferðum Ágústu leikstjóra við að segja sögu.
Sterk upplifun var einnig að hlusta á firna vel unna stúdíótónlist Halls Ingólfssonar í nemendasýningu FG á Múlan Rús.
Fyndnasta leiksýningin
Klerkar í klípu
Leikfélag Ólafsvíkur
Leikstjóri: Hörður Sigurðarson
Þetta leikrit er svo svakalega fyndið þegar leikstjórnin er vönduð og svo var raunin nú þó að Hörður og Ólafsvíkingar komist ekki með tærnar þar sem Saga og Hörgdælir höfðu fyndnu hælana sína í fyrra.
Spunaleikrit Sigrúnar Sólar og Selfyssinganna var líka mjög fyndið með allan sinn neðanbeltis – og aulahúmor en líka af því að stungið var á mörgum þekktum kýlum.
Frumlegasta nýting á rými
Stúdentaleikhúsið
Þú veist hvernig þetta er
Leikstjóri og hönnuður leikmyndar:
Jón Páll Eyjólfsson
Það var eitthvað brjálæðislega krassandi við rýmisleikhúsið á Grandanum þar sem áhorfendur þurftu að standa og snúast í allar áttir í myrkri og stundum bleytu og saggalykt. Líka í útihúsinu þeirra í Sögu á Akureyri.
Efnilegasti leikarinn
Vigdís María Hermannsdóttir
Stundarfriður – Leikfélag Hörgdæla
Vigdís María er mjög minnistæð sem unglingurinn Guðrún í Stundarfriði, henni tókst að hvíla fallega í sorg, einmanaleika, kæruleysi, tillitsleysi og þrá eftir væntumþykju en allt þetta er svo kunnuglegt í unglingum. Þar sem hún er aðeins fjórtán ára er merkilegt hvað hún var afslöppuð á sviðinu.
Félagi Vigdísar, Ívar Björnsson sem lék Árna bróður Guðrúnar í sama leikriti, er líka efnilegur ungur leikari og svo er einnig um Albert Sölva Óskarsson sem lék Davíð í Þreki og tárum.
Sýningar sem ég gagnrýndi:
Fúría Kvennaskólans – Í þágu þjóðarinnar
Herranótt MR – Að eilífu
Hugleikur -Enginn með Steindóri
Hugleikur – Patataz
Hugleikur – Þetta mánaðarlega, sex þættir
LFMH – Martröð á jólanótt
Leikfélag Dalvíkur – Kvenfélagið
Leikfélag Fljótsdalshéraðs – Bugsy Malone
Leikfélag Hafnarfjarðar – Beisk tár Petru Von Kant
Leikfélag Hafnarfjarðar –Birdy
Leikfélag Hafnarfjarðar – Dýragarðssaga
Leikfélag Hofsóss – Góðverkin kalla
Leikfélag Hornafjarðar ofl – Súperstar
Leikfélag Hörgdæla – Stundarfriður
Leikfélag Hveragerðis – Þið munið hann Jörund
Leikfélag Keflavíkur – Hans og Gréta
Leikfélag MÍ- Þar sem djöflaeyjan rís
Leikfélag Mosfellssveitar – Peysufatadagurinn
Leikfélag Mosfellssveitar – Ævintýrabókin
Leikfélag NFSu – Músagildran
Leikfélag Ólafsvíkur – Klerkar í klípu
Leikfélag Seyðisfjarðar – Í Tívolí
Leikfélag Sauðárkróks – Ávaxtakarfan
Leikfélag Sauðárkróks – Þrek og tár
Leikfélagið Gunnar Ármúla-Glæsibær vs. Mjóddin
Leikfélagið Hallvarður Súgandi – N.Ö.R.D.
Leikfélagið Landsleikur – Dýrðlegt fjöldasjálfsmorð
Nemendafélag FG – Múlan Rús
Sauðkindin í MK – Kaffi Kash
Skagaleikflokkurinn – Járnhausinn
Snúður og Snælda – Ástandið
Sólheimaleikhúsið – Ævintýri Þumalínu
Stúdentaleikhúsið – Tilbrigði við sjófugl
Stúdentaleikhúsið – Þú veist hvernig þetta er
UMF Baldur, Vaka og Samhygð – Stútungasaga
Ungmennafélagið Íslendingur – Blái hnötturinn
Vox Arena FS – Er tilgangur
Auk þeirra sá ég:
Freyvangsleikhúsið – Taktu lagið Lóa
Hugleikur og Leikfélag Kópavogs – Memento Mori
Leikfélag Hafnarfjarðar- Að sjá til þín maður
Leikfélag Húsavíkur – Sambýlingar
Leikfélag Selfoss – Náttúran kallar
Leikklúbburinn Saga – Davíð Oddsson Súperstar
Kom sjálf að þessum sýningum:
Leikfélagið Sýnir – Stútungasaga
Leikfélag Kópavogs – Allra kvikinda líki