ImageEdith Piaf, ein frægasta söngkona heims, hefði orðið 90 ára gömul 19. desember nk. Af því tilefni verður flutt í Þjóðleikhúsinu söngdagskrá um Edith Piaf úr samnefndri sýningu leikhússins.
Dagskráin hefst kl. 21:00. Það er Brynhildur Guðjónsdóttir sem er í hlutverki Edith Piaf. Brynhildur "Piaf" Guðjónsdóttir hefur heillað landann með túlkun sinni á Edith Piaf, einhverri ógleymanlegustu rödd síðustu aldar, en fyrir hana hlaut Brynhildur Grímuna – Íslensku leiklistarverðlaunin sem besta leikkona í aðalhlutverki.

Sýning Þjóðleikhússins á Edith Piaf eftir Sigurð Pálsson hefur gengið fyrir fullu húsi í yfir 90 skipti og virðist ekkert lát á vinsældum hennar. Piaf var goðsögn í lifanda lífi. Lífshlaup hennar var einstakt; hún ólst upp meðal vændiskvenna og bófa í skuggahverfum Parísarborgar en með rödd sinni og einstakri túlkun komst hún upp á svið helstu hljómleikahúsa heims. Við kynnumst konu sem aldrei afneitaði neinu og allra síst fortíð sinni og uppruna, hvað þá ástarsamböndum sínum.

Flytjendur auk Brynhildar verða leikarinn Baldur Trausti Hreinsson og tónlistarmennirnir Jóhann G. Jóhannsson á píanó, Birgir Bragason á kontrabassa, Hjörleifur Valsson á fiðlu, Jóel Pálsson á tenórsaxófón og klarinett og Tatu Kantomaa á harmónikku.

Söngdagskráin hefur verið flutt áður á Egilsstöðum og Akureyri og hlotið frábærar viðtökur.

Dagskráin verður sem fyrr segir mánudaginn 19. desember kl. 21:00 á Stóra sviðinu.