Þann 5. nóvember 1993 hópaðist áhugafólk um geimverur og fljúgandi furðuhluti vestur á Snæfellsjökul til að verða vitni að heimsókn úr geimnum, sem sjáendur víðs vegar um heiminn höfðu séð fyrir. Tímasetning heimsóknarinnar var nákvæm. Klukkan 21:07 áttu geimverur að lenda á jöklinum. Íbúar á utanverðu Snæfellsnesi fóru ekki varhluta af þessum einstaka viðburði, og þeirri athygli sem hann vakti í fjölmiðlum, bæði hér heima sem og erlendis.

Nú, 20 árum síðar, hafa leikararnir Kári Viðarsson og Víkingur Kristjánsson sökkt sér niður í heimildir og byggt á þeim leiksýninguna 21:07. Þeir fara auk þess með öll hlutverk í verkinu.

Frystiklefinn hefur verið starfræktur frá árinu 2010 í gömlu fiskvinnsluhúsi. Fyrsta verkið sem þar var flutt, Hetja, var einnig samvinnuverkefni þeirra Kára og Víkings.

Sýningar hefjast kl. 20. Miðasala fer fram í síma 865-9432, á netfanginu frystiklefinn@gmail.com og á midi.is.