Á alþjóðlegum degi kvenna þann 8. mars fer fram 8. sýning Rauða skáldahússins, sem verður eingöngu skipuð konum. Rauða skáldahúsið heldur uppi ljóðaveislum í leikhúsanda sem fara fram í Iðnó fjórum sinnum á ári þar sem ljóðalestri er blandað saman við leikhús, kabarett, börlesk, sirkús og tónlist.

Iðnó er breytt í athvarf listamanna sem ættu vel heima á 3. áratug síðustu aldar. Gestir geta verslað einkalestra með skáldum kvöldsins, látið spá fyrir sér, dansað, drukkið og blandað geði við hvort annað.

Rauða skáldahúsið hefur fest sig í sessi sem reglulegur menningarviðburður sem hefur hýst skáld jafn ólík og Sjón, Kristínu Ómarsdóttur, Hallgrím Helgason, Kristínu Eiríksdóttur og Kött Grá Pjé.
Sjón lét hafa eftir sér um viðburðinn í mars fyrir ári síðan: „Þetta er ágætis áminning um það af hverju ég fór út í skáldskap yfirleitt.“
Aðalskáld sýningarinnar er Elísabet Jökulsdóttir, sem hlaut nýlega viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins fyrir sín ritstörf og gaf einnig nýlega út ljóðabókina Stjarna á himni: Lítil sál sem aldrei komst til jarðar sem fjallar um fósturmissi og hefur nánast verið uppseld frá því hún komst í prent.
Skemmtiatriði eru af ýmsum toga nú sem fyrr, m.a. tælir börlesk drottningin María Callista úr Dömum og herra viðstadda og tónlistarkonurnar Skaði og ÍRiiS syngja og spila fyrir gesti. Gestir geta einnig fengið tarot spá frá norninni Snæuglu, sem er líklegast betur þekkt sem Bára Halldórsdóttir eða Klaustur Bára – og eins og alþjóð veit þá getur hún spáð fyrir um ýmsa óorðna viðburði.
Þema kvöldsins er ‘Nornaseiður’, og mega áhorfendur búast við kukli í bland við kynþokka frá nornum hússins. Pókermyntir eru seldar á staðnum sem má nýta í að kaupa einkalestra með skáldum kvöldsins eða tarot spá. Að sjálfsögðu er barinn opinn, og gestir hvattir til að dansa og skemmta sér.
Frekari upplýsingar má finna á facebook viðburði sýningar, og miðasalan er á tix.is
Miðaverð er 3000 krónur í forsölu, en 3500 krónur við hurð. 50% nemendaafsláttur er í boði.