Leikfélag Kópavogs
Elskhuginn eftir Harold Pinter
Þýðing Ingunn Ásdísardóttir
Leikstjórn Örn Alexandersson

Það var húsfyllir í sal Leikfélags Kópavogs þegar ég mætti til leiks 30. október síðastliðinn á aðra sýningu á leikritinu Elskhuganum eftir nóbelsverðlaunahöfundinn Harold Pinter. Þetta er stutt leikrit sem fjallar um ástir samlyndra hjóna, semsagt afar ófrumlegt og lítt áhugavert efni en sett fram á frumlegan og áhugaverðan hátt enda er ástarlíf hjónakornanna fremur óvenjulegt.

Leikritið er skrifað snemma á ferli skáldsins eða árið 1963. Ingunn Ásdísardóttir þýddi það á íslensku á vegum Alþýðuleikhússins árið 1988 og leikstýrði því á sínum tíma. Síðan hefur það ekki verið sýnt á sviði hérlendis, svo ég viti, þar til nú.

Það er erfitt að segja í hvaða flokk þetta leikrit fellur. Sumir telja að það sé gamanleikur, aðrir ganga út frá því að um harmleik sé að ræða. Sumir líta á það sem súrrealisma, aðrir sem hreinan realisma. Sumir halda að verkið sé frammúrstefna, aðrir skoða það sem hefðbundið gamaldags baðstofustykki. Leikstjórar hafa því að vonum farið ólíkar leiðir í túlkun þess. Samt er sama hvernig að er farið, leikritið skemmtir áhorfandanum meðan á sýningunni stendur en sendir hann ráðvilltan og hugsandi út í kvöldið að leik loknum. Í meðförum Kópa-vogs¬leikhússins er slegið á hina kómisku strengi til að byrja með en dramatíkin eykst er á líður og verður þungbær í restina. Sömu sögu er að segja um raunsæið, allt er rökrétt og auðskilið í byrjun en síðan vita menn ekki hvert stefnir, hvað er raunveruleiki og hvað er tálsýn og ég er enn að velta því fyrir mér hvort sagan endaði vel eða illa.

Elskhuginnn_032_250x187Það eru aðeins tveir leikarar í sýningunni, þau Arnfinnur Daníelsson og Anna Margrét Pálsdóttir, reyndir leikarar úr röðum LK en líklega í sínum stærstu hlutverkum til þessa. Verkið stendur og fellur með frammistöðu þeirra. Á sviðinu þurfa þau að tjá gleði og sorg, ást og andúð, umhyggju og ógnandir, kynferðislega munúð og tilfinningalegan kulda. Þetta gera þau allt eins og ekkert sé.
Sýningin var reyndar í alla staði fagmannlega unnin, sviðsmyndin snyrtileg og einföld, lýsingin hnökralaus, þannig að maður tók varla eftir henni, tónlistin vel valin 20. aldar músikk, búningar í góðu samræmi við andrúmsloftið en leikararnir þurftu furðu oft að hafa fataskipti í ekki lengra verki. Þó er engin nekt í þessari uppfærslu.

Leikstjórnin er góð, vel er gætt að viðkvæmu samspili og tilfinningalegri togstreitu persónanna, framsögn og undirtexta. Allt skilar þetta sér á sviðinu, líka það sem maður botnar ekkert í. Það er Örn Alexandersson, þungavigtarmaður hjá LK, sem stýrir verkinu en aðstoðarleikstjóri er Sigrún Tryggvadóttir. Lýsingu hannaði Skúli Rúnar Hilmarsson, leikmynd Þorleifur Eggertsson og um hljóð sá Hörður Sigurðarson.

Eitt er ég þó óhress með – leikskrána. Á henni er fátt að græða, ekkert er sagt um leikritið, leikfélagið, leikstjóra, leikara eða aðra aðstandendur sýningarinnar, aðeins þurr nafnalisti en þó vantar að nefna ritstjóra leikskrár og umbrotsmann.
Burtséð frá þessu er Elskhuginn í meðförum Kópavogsleikhússins prýðileg sýning sem áhugafólk um leiklist og leikhús ætti ekki að missa af. Harold Pinter er eitt af bestu leikskáldum sinnar kynslóðar og vel heppnaðar uppfærslur á verkum hans, eins og hér gefur að líta, eru alltaf menningarviðburður.

Árni Hjartarson