Stúdentaleikhúsið frumsýndi í síðustu viku frumsamið verk sem þau kalla Anímanínu. Leikstjóri verksins er Víkingur Kristjánsson og  sýnt er í Loftkastalanum. Ármann Guðmundsson brá sér á frumsýningu.
animanina2.jpgStúdentaleikhúsið
Anímanína eftir leikhóp og leikstjóra
Leikstjóri Víkingur Kristjánsson
Sýnt í Loftkastalanum

Það er alltaf spennandi að labba inn í leikhús og hafa ekki hugmynd um á hverju maður á von. Þá tilfinningu hafði ég þegar ég steig inn í Loftkastalann á leið á frumsýningu á Anímanínu, nýjasta verki Stúdentleikhússins. Jú, reyndar hafði ég séð ljósmynd og kynningarefni sem benti til þess að þarna væri um einhverskonar deviced-sýningu að ræða og þegar ég var kominn með leikskrá í hendurnar upplýstist það að verkið fjallar um ótta. Það sem við óttumst.

Hvort sem það er meðvitað eða ekki er sýningin sem slík eitthvað sem margir leikhúsgestir óttast. Það eru margir sem vita ekkert verra en að fara í leikhús og vera sviptur öryggi fjórða veggjarins, að geta átt von á að leikari hlammi sér niður við hliðina á þeim og geri þá þannig þátttakendur í sýningunni. Og svo er náttúrulega til fólk sem almennt þolir ekki að fá blautan svamp í andlitið. Mér finnst hins vegar leikhús með nánu sambandi leikara og leikhúsgests skemmtilegasta form leikhússins og hafði því gaman af uppátækjum leikhópsins.

Það er reyndar erfitt að fjalla um sýninguna án þess að eyðileggja upplifunina fyrir væntanlegum áhorfendum þar sem stór hluti hennar er eftirvæntingin „hvað gerist næst“. Það kom líka fljótlega í ljós að hér var ekki um eiginlegt leikrit að ræða. Sýningin hefur engan línulegan söguþráð og engar eiginlegar persónur, heldur er brugðið upp mislöngum senum og aðstæðum þar sem við sjáum óttann birtast í myndum sem oftast eru spaugilegar á skemmtilega harmrænan hátt. Nokkur atriði hefðu þó mátt missa sín eða í það minnsta hefði þurft að vinna þau betur og dettur mér í hug sem dæmi stutt atriði þar sem fjölskylda er á ferðalagi í bíl. Náði því ekki.

Það er stór hópur leikara í verkinu, vel á þriðja tuginn, og í sjálfu sér ekki ástæða til að vera nefna einn frekar en annan og reyndar illgerlegt þar sem gervi eru nánast eins á öllum leikurum. Heilt yfir stóðu allir sig með prýði og svo sem engin ný tíðindi að Stúdentaleikhúsið búi yfir öflugum leikarahóp. Þessi fjöldi leikara er samt sennilega helsti akkilesarhæll sýningarinnar því þrátt fyrir að stundum sé hann notaður á skemmtilegan hátt þá verður hann líka til þess að sýningin missir á köflum  fókus, verður kaótísk og ruglingsleg. Enda njóta sín almennt best senurnar þar sem fáir leikarar eru á sviðinu og fókus er skýr.

Maður fær á tilfinninguna að leikstjórinn Víkingur Kristjánsson hafi gefið leikurunum afar  lausan taum og kannski óþarflega á köflum en það er í sjálfu sér eðlilegt þegar verk eru unnin svona frá grunni af leikhópnum. Engu að síður eru sumar senurnar afar sterkar og má þar nefna senuna um ellina sem var meinfyndin og en jafnframt sú sena sem snart mann mest. Ég hefði gjarnan viljað að lifandi tónlist hefði verið meira notuð, atriðin þar sem það var gert voru tvímælalaust með skemmtilegri atriðum sýningarinnar og einhvern veginn efast ég ekki um að innan þessa stóra hóps sé fullt af hæfileikaríku tónlistarfólki sem nýta hefði mátt í verkinu.

Þegar á heildina er litið er Anímanína fínasta skemmtun, lifandi og hæfilega aggressíf sýning en verkið hefði gjarnan mátt þétta og gera hnitmiðaðra á köflum. Ég leyfi mér því óhikað að mæla með því að fólk bregði sér í Loftkastalann að sjá Anímanínu. Þ.e. ef fólk óttast ekki leikhús.

Ármann Guðmundsson