Sýning Leikfélags Hafnarfjarðar, Ekkert að óttast, var valin Athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins 2016 af valnefnd Þjóðleikhússins. Ari Matthíasson Þjóðleikhússtjóri tilkynnti valið á hátíðarkvöldverði í tengslum við aðalfund Bandalags íslenskra leikfélaga á Seyðisfirði þann 7. maí sl.

Ekkert að óttast verður sýnd í Kassanum í Þjóðleikhúsinu laugardaginn 4. júní kl. 19.30.

Ekkert að óttast (Gunnar á Leiðarenda) er gamanleikur eftir 12 höfunda úr höfundasmiðju LH. Leikritunarferlið tók um tvær vikur þar sem hver höfundur byrjaði á að skila inn einni persónu í persónubanka semsíðan voru skornar niður í sjö. Hver höfundur dró Tarot spil og saman mynduðu þau vísi að framvindu og áherslur sem reynt var að hafa til viðmiðunnar við skriftirnar. Dregið var um röð höfunda og í hvaða tímaröð þeir myndu skrifa. Hver höfundur hafði síðan 24 tíma til að skrifa sinn kafla í stykkið og sendi hann áfram á þann næsta í röðinni og svo koll af kolli. Út úr þessari vinnu fengum við handrit sem virkaði merkilega vel en sérvaldir höfundar úr hópnum eyddu síðan helgi við að umskrifa og samræma textann. Það var gert til að persónueinkenni héldu sér og eins til að fækka baksögum og slíkt. Leikstjóri er Ólafur Þórðarson.

Verkið fjallar um peninga, græðgi og svik, já og humar. En það fjallar líka um ást af ýmsum toga og það sem við erum tilbúin að gera eða ekki gera í nafni ástarinnar. Það fjallar um mikilvægi þess að hafa ást í hjartanu eða þykjast hafa ást í hjartanu. Að vera heiðarlegur og einbeittur og að horfast í þriðja augað við sig. Annars endar allt með ósköpum.

Miðasala hér.