Fimmtudagskvöldið 10. apríl frumsýnir Leikfélag Húsavíkur kvölddagskrá sem unnin er upp úr verkum sem hafa áður verið sýnd hjá félaginu. Tekin eru atriði úr Síldin kemur og síldin fer eftir þær systur Iðunni og Kristínu Steinsdætur, Skugga Sveini eftir Matthías Jochumsson, Gúmmí Tarsan eftir Ole Lund Kirkegaard og Sölku Völku eftir Halldór Laxness.

Nokkrar helstu kanónur félagsins stíga á svið að þessu sinni eftir nokkurt hlé, þar má nefna Sigurð Hallmarsson sem leikur nafna sinn í Dal í Skugga Sveini, Hrefnu Jónsdóttur sem leikur Sigþóru í Síldinni en það gerði hún einnig á sínum tíma þegar félagið setti verkið upp. Nú Bjarni Sigurjónsson leikur Hróbjart í Skugga Sveini og Jóhannes Geir Einarsson leikur Spreng í Síldinni eins og hann gerði á sínum tíma. Börn og unglingar taka einnig þátt í dagskránni, þannig að Leikfélag Húsavíkur brúar heldur betur kynslóðabilið að þessu sinni, ætli það sé ekki hátt í 70 ára aldursmunur á þeim elsta og þeim yngsta!

Sýningar verða aðeins 5, frumsýning 10. apríl eins og áður sagði, svo 14. – 17. apríl á hverjum degi. Sýningarnar hefjast allar kl. 20.

{mos_fb_discuss:2}