Leikdeild Ungmennafélags Stafholtstungna frumsýnir hinn sívinsæla farsa Einn koss enn og ég segi ekki orð við Jónatan, föstudaginn 31. mars. Í verkinu sem er eftir Marc Camoletti, segir frá Jónatan sem heldur við þrjár flugfreyjur sem allar starfa hver hjá sínu flugfélaginu. Þegar flugfélögin fá sér hraðskreiðari þotur fer skipulagið úr skorðum og Jónatan á fullt í fangi með að halda sjó með aðstoð Dísu ráðskonu sinnar og æskufélagans Róberts sem óvænt kemur í heimsókn. Sex leikarar taka þátt í sýningunni en leikstjóri er Hörður Sigurðarson.
Æfingar hafa staðið síðan í byrjun febrúar en frumsýnt verður næstkomandi föstudag eins og áður sagði, í félagsheimilinu Þinghamri. Alls koma um tuttugu manns að sýningunni á einn eða annan hátt. Leikarar eru sumir að stíga sín fyrstu skref með leikdeildinni en einnig er að finna í sýningunni gamla félaga.
Leikverkið sem er í þýðingu SigurðarAtlasonar er eftir Frakkann Marc Camoletti sem hóf feril sinn sem leikritaskáld árið 1958. Það ár voru hvorki fleiri né færri en þrjú leikrit eftir hann sett samtímis á fjalirnar í París. Hann var afkastamikið leikskáld allt þar til hann lést árið 2003. Þekktasta verk hans er leikritið sem hér er sýnt undir heitinu Einn koss enn og ég segi ekki orð við Jónatan, en það nefnist Boeing-Boeing á frummálinu. Það var frumsýnt snemma á sjöunda áratug síðustu aldar en hefur verið sýnt um allan heim eftir það. Kvikmynd var gerð eftir verkinu árið 1965 með Tony Curtis og Jerry Lewis í aðalhlutverkum. Leikverkið var fyrst sýnt á Íslandi hjá Leikfélagi Kópavogs árið 1968 undir heitinu Sexurnar.
Miðapantanir eru í síma 824-1988.