Grein um einleikjaformið og möguleika þess. Áður birt í Leiklistarblaðinu 1998.

Einleikir

Það þarf enginn að ganga þess dulinn að einleikir eru í tísku. Þetta er öllum ljóst sem voru á einþáttungahátíð Bandalagsins í Stykkishólmi síðastliðið vor, og öðrum er bent á að kíkja í síðasta leiklistarblað. Af níu þáttum voru fjórir einleikir, hvorki meira né minna. Ekki er gott að segja hvað veldur, en óneitanlega eru einleikir meðfærilegir til flutnings milli landshluta og oft, en þó ekki alltaf, einfaldir í uppsetningu. Frægur breskur leikari benti einu sinni á að það versta við að leika einleik væri að fá einn allar nóturnar, en kosturinn væri að það væri ódýrt fyrir leikstjórann að bjóða leikhópnum í mat. En allavega: einleikir eru „inni“, og því best að gefa smá yfirlit yfir þá sem til eru hjá Bandalaginu.

 

Damerne først…

Einleikir eru líklega eina leikritategundin sem er til í meira úrvali fyrir konur en karla. Hvort þetta er vegna þess að konur séu málgefnari en karlar skal ósagt látið, en margir þessir leikir eru framúrskarandi og skal nokkurra getið. Af styttri þáttum ber fyrstan frægan að telja Nóbelstrúðinn Dario Fo. Hann skrifaði ásamt eiginkonu sinni Franca Rame, nokkur afbragðsgóð eintöl sem sum hver eru til hjá Bandalaginu. Aðallega í söfnunum Kona og Dónalega dúkkan. (Dario hefur reyndar líka skrifað frábær eintöl fyrir karla, en þau eigum við því miður ekki. Vill einhver vera svo vænn og þýða þau strax!) Mig langar að nefna þrjú af þessum eintölum sérstaklega. Kona einsömul byrjar sakleysislega, kona talar við nágrannakonu sína út um glugga, en fljótlega kemur í ljós að það er ekki bara einsemdins sem hrjáir hana. Í Samtal fyrir eina rödd talar gift kona við ímyndaðan elskhuga. Við höfum allar sömu sögu að segja er ótrúlegt ferðalag um reynsluheim konunnar. Allir þessir þættir eru í hæsta máta leikrænir, hér er ekki verið að segja sögu, heldur er textinn stökkbretti fyrir ímyndunarafl leikarans… og áhorfenda. Ingibjörg Hjartardóttir sendi fyrir nokkru frá sér þrjá einleiki fyrir konur, sem allir eru byggðir á viðtölum við konur með áhugaverða lífsreynslu að baka. Saga dóttur minnar, Bóndinn og Slaghörpuleikarinn eru hver með sínum hætti krefjandi og áhugaverð verkefni. Svefnþula Samuels Beckett er, eins og fleiri af stuttverkum hans, um minningar, ógn þeirra og vald yfir okkur. Mörg þessara verka eru á landamærum einleiks og tvíleiks, þar sem ein persóna er þögull áheyrandi að orðaflaumi hinnar sem kannski og kannski ekki er sú sama og hin fyrri. Ekki ég er eitt slíkra verka. Af einleikjum í fullri lengd ber fyrst að nefna tvö leikrit um skáldkonur. Gertrude Stein, Gertrude Stein, Gertrude Sein, sem fjallar um… já rétt til getið, Gertrude Stein, og Dóttir Lúsífers, þar sem Karen Blixen rekur sína litríku æfisögu. Að lokum eru hér tvær heiðurskonur, hvor með sínu laginu en báðar bráðskemmtilegar að glíma við, breska lágstéttarhúsmóðirin Sigrún Ástrós í kostulegri leit að sjálfri sér og brasilíska kennslukonan Fröken Margrét, vitfirringur eða fullkomlega eðlilegur fulltrúi vitskerts valdakerfis. !

 

…svinerne så

Drög að svínasteik er makalaust einleiksverk þar sem við fylgjum einmana grís til slátrunar, og hvernig hann býr sig undir þennan tilgang tilveru sinnar. Annar einmanna karl er að finna í Kontrabassanum, en sjálfsánægja hans yfir mikilvægi hljóðfæris síns er þunn skel yfir örvæntingunni að þurfa að burðast með þetta skrímsli alla æfi. Bæði þessi verk eru í fullri lengd, en heldur meira er að hafa af styttri verkum fyrir einn kall. Eitt þeirra er eftir Sigrúnu Óskarsdóttur og er einleikur að öðru leyti en því að kona syngur eitt lag. Ó Færiband! fjallar um ofurvenjulegan mann á leið til Kaupmannahafnar sem dreymir dagdrauma um fallegu konuna í sætinu fyrir framan. Um skaðsemi tóbaksins þekkja margir, en þar er á ferðinni lítil perla frá dr. Anton Tsjekhov. Vonsvikinn skólakennari flytur fyrirlestur um tóbaksbölið, en gengur illa að halda sér við efnið, þegar öll æfin hvílir á honum. Þáttur sem kallar fram hlátur og grát í rétttum hlutföllum. Samuel Beckett skrifaði Síðasta segulband Krapps, en þar höfum við öldunginn Krapp og segulböndin þar sem hann hefur hljóðritað minningar sínar. Leikboði Arnar Alexanderssonar er maðurinn sem talar fyrir munn okkar allra. Hann boðar sæluríki leiklistarinnar af sannfæringu þess manns sem séð hefur ljósið. Lifi leiklistin, leikum núna

dúittjorself

En hvers vegna að láta sér nægja þetta fátæklega úrval? Skoðið í bókahillurnar heima og á söfnunum. Er hægt að „einleikgera“ uppáhalds smásöguna? Er hún sögð í fyrstu persónu eintölu og dramatísk? hvað með kafla úr eftirlætis skáldsögunni? Hvað þarf miklu að breyta til að komin sé sviðsgerð? Svona, út á gólf með skrudduna og byrja, einn, tveir…

Þ.T.