Dagana 3.-14. október heldur leikhúslistakonan Pálína Jónsdóttir leiklistarnámskeið þar sem hún kennir  list og tækni leikarans með aðferðum Suzuki, Viewpoint og Composition. Þáttakendur læra líkamlegt æfingakerfi Suzuki leikaraþjálfunarinnar, spunaaðferðir og leikhústungumál Viewpoint aðferðarinnar og Composition sem þjálfar þátttakendur í að setja leikatriði saman. Á námskeiðinu verður unnið með klassíska texta í Suzuki þjálfuninni og í Viewpoint og Composition verður unnið með meistarasögu Karenar Blixen, Gestaboð Babettu. Námskeiðið er haldið í Dómshúsinu við Lindargötu.

 

Námskeiðið fer fram mánudaga til föstudaga frá kl 17-20.
Námskeiðsgjald 20.000 krónur
Umsóknarfrestur rennur út 1 október.

Skráning hjá pj@talnet.is sími 6966939

Námskeiðið er krefjandi og þurfa þáttakendur að vera líkamlega vel á sig komnir. Aldurstakmark er 19 ár.

Suzuki leikaraþjálfunarkerfið er þróað af hinum heimsfræga japanska leikhúslistamanni Tadushi Suzuki. Aðaláherslan er lögð á að endurbyggja líkama leikarans inn í samhengi leikhússins í þeim tilgangi að fletta ofan af meðfæddum hæfileikum hans í þágu listrænnar sköpunargáfu. Þjálfunin er hárnákvæm og líkamlega erfið, samsett úr margvíslegum líkamsæfingakerfum, s.s. ballet, japanskri og grískri leiklist og sjálfsvarnaraðferðum. Markmið þjálfunarinnar er að auka tilfinningalegt og líkamlegt vald leikarans á sjálfum sér og gera hann færan um að lifa í augnablikinu á sviðinu. Áhersla er lögð á neðri hluta líkamans, einkum fæturna, og stuðla að valdi leikarans á öndun og einbeitingu.

Viewpoints – sjónarhornin er spunaaðferð sem á upptök sín í póstmóderníska dansheiminum og var sett fram af danshöfundinum Mary Overlie og síðar aðlöguð fyrir leikara af Anne Bogart. Viewpoints er leikhústungumál sem skilgreinir það sem gerist á sviðinu og samanstendur af hugtökum sem lýsa reglum hreyfinga í tíma og rúmi. Viewpoints er hagnýt aðferð sem byggir á samvinnu leikhúslistamanna, eins konar verkfærakassi sem gefur hópi leikara tækifæri til að skapa og vinna með atriði leiklistarinnar sem standa utan hefðbundins frásagnarramma.

Composition – samsetning er aðferð sem tengir leikara við efnivið verksins og er góð leið til að brjóta verk upp í smærri einingar fyrir leikhópa svo þeir geti skapað stutta, nákvæma leikþætti sem draga fram þeirra sýn á efniviðinn.  Þannig býr hópurinn til merkingu í gegnum vinnnuferlið og skipulag þess. Aðferðin býr til, skilgreinir og þróar tungumál leikhússins
og afhjúpar huldar hugsanir og tilfinningar þátttakenda gagnvart verkefninu.

Pálína útskrifaðist úr Leiklistarskóla Íslands árið 1995. Hún hefur starfað hérlendis og erlendis við leikhús og kvikmyndir. Pálína lauk námi í kennsluréttindum frá LHÍ árið 2009 og framhaldsnámi í Columbia University í NYC í Suzuki, Viewpoint og Composition leiklistaraðferðum undir leiðsögn Anne Bogart og Siti Company.

„Theater is the art wherein human beings make human action worth watching.“
Paul Woodruff

{mos_fb_discuss:3}