Miðvikudaginn 10. október frumsýnir Draumasmiðjan „Ég á mig sjálf“, forvarnarleikrit gegn átröskunarsjúkdómnum anorexíu,. Verkið er samið af leikhópnum og Gunnari Gunnsteinssyni. Leikarar eru Ásta Sighvats Ólafsdóttir og Bryndís Petra Bragadóttir en leikstjóri er Margrét Pétursdóttir. Frumsýningin verður  í Hagaskólanum í Reykjavík klukkan tíu árdegis.

Leikritið sýnir okkur samskipti mæðgna eina morgunstund þar sem fljótlega kemur í ljós að átröskunarsjúkdómurinn anorexía hefur náð tökum á dótturinni á nýjan leik. Þetta er áhrifamikið verk um þá blekkingu sem litar allt líf átröskunarsjúklinga þegar sjúkdómurinn hefur náð tökum á þeim og kvölina og ráðaleysið sem aðstandendur standa frammi fyrir. Sýningin er ætluð unglingum og foreldrum þeirra og sýningar áætlaðar í grunnskólum, framhaldsskólum, vinnustöðum og víðar. 

Draumasmiðjan hefur verið starfandi síðan árið 1994 og á því tímabili hefur hún sýnt fjölda leiksýninga fyrir börn og fullorðna. Síðustu árin hefur draumasmiðjan sérhæft sig í svokölluðu döff leikhúsi, auk venjulegrar leiklistarstarfsemi. Næsta verkefni Draumasmiðjunnar er „Óþelló, Desdemóna og Jagó”  sem gert er í samstarfi við Borgarleikhúsið og Íslenska dansflokkinn, en það verk verður frumsýnt 19. janúar 2008 á Litla sviði Borgarleikhússins.
 

{mos_fb_discuss:2}