Leikfélag Menntaskólans við Hamrahlíð sviðsetur Djáknann á Myrká og Miklubæjar Sólveigu auk fjölda annara sagna, sögurnar fléttast saman og bakkabræðurnir Gísli, Eiríkur og Helgi létta á atburðarrásinni með sínum hætti. Þessar sögur eru á við mjög góða spennumynd. Með nútíma sviðstækni lifna þær við með ljósum, tónlist og litum. Sýningin er full af fallegum textum eftir Davíð Stefánsson, Stein Steinarr og önnur þjóðskáld auk texta eftir hópinn. Leikritið reynir á líkamlega færni, þetta er sannkallaður draugadans.
Síðustu 3 mánuði hafa nemendur MH verið að vinna að þessu verkefni og frá 18.desember hafa allir nemendurnir æft stíft 7 tíma á dag (frí á aðfangadag, jóladag og gamlaársdag).

 

Tónlistin í sýningunni er útfærð af Helga Rafni og má þar heyra lög á borð við Móðir mín í kví kví, Garún, Sofðu unga ástin mín og svo nýja tónlist eftir Helga.

Þátttakendur eru yfir 50 frá MH, leikarar, kór og hljómsveit.

Leikgerð og leikstjórn: Jón Gunnar Þórðarson
Tónlist: Helgi Rafn Ingvason

Sögurnar sem unnið er með:
Miklubæjar-Sólveig, Djákninn á Myrká, Móðir mín í kví kví, Fjalla-Eyvindur, Parthúsa Jón, Draugshúfan og Bakkabræður.

Ef farið er á internetið og „googlað“ orðunum „Ghost stories“ kemur fyrsti valmöguleikinn: „Icelandic ghost stories“. Hvergi í heiminum virðast vera eins margar draugasögur og á Íslandi. Þær lifa með íslensku þjóðinni og flytjast frá kynslóð til kynslóðar. Af hverju eru Íslendingar svona mikið fyrir draugasögur? Draugasögur væru ekki til ef við byggjum ekki í þessari stórbrotnu leikmynd. Leikmynd með jöklum, hrauni, fjöllum, fossum, hverum, mosa, hita, kulda og skuggum, landslag sem á ekkert sér líkt í heiminum. Þegar heimildavinnan hófst söfnuðum við draugasögum saman og innan mánaðar var bókastaflinn orðinn hár og við áttaðum okkur á því að við, Íslendingar, eigum mörg þúsund draugasögur. Það væri hægt að koma með mörg framhaldsleikrit en við þurftum að velja og hafna. Það er verðugt verkefni og e.t.v. skylda okkar að rifja upp þessar sögur og kryfja þær.

Frumsýnt var laugardaginn 20. janúar í Tjarnarbíói.
Hægt er að panta miða milli klukkan 14 og 17 alla daga í síma 846-2618.
Næstu sýningar eru 25., 26., 27. og 28. janúar og 3. og 4. febrúar kl. 20.00.