Laugardaginn 28.október mun Dogmaleikhópur Borgarleikhússins opna dyrnar fyrir almenningi. Síðastliðnar fjórar vikur hefur leikhópurinn verið að skoða hlutverk leikarans í vinnunni með leikverkið. Vettvangur rannsóknarinnar hefur verið Sólarferð eftir Guðmund Steinsson.  Leikararnir hafa kastað á milli sín hugmyndum að úrlausnum og leikaðferðum, án tilkomu leikstjóra eða útlitshönnuða. Þeir hafa velt fyrir sér ábyrgð leikarans í vinnuferlinu og prófað mismunandi vinnaðferðir og er ætlunin að leyfa öllu leikhúsáhugafólki að sjá útkomuna. Áhorfandinn er órjúfanlegur hluti af leikhúsinu og því ekki hægt að gera rannsókn með leiklistarformið án þess að taka áhorfendur inn í það ferli.

Dogma er röð af styttri verkefnum sem hafa það að markmiði að skoða vinnuaðferðir innan leiklistarformsins. Orðið Dogma útleggst á íslensku sem kennisetning eða reglur, og er það markmið verkefnisins að skoða hlutverk/kennisetningar mismunandi listamanna innan leikhússins.
Leikhúsið er listform þar sem margir listamenn vinna jafnhliða.
Í Dogma er hugmyndin að skoða hlutverk eins listamanns í einu, óháð hlutverki hinna. Í þessu fyrsta Dogmaverkefni Borgarleikhússins er hlutverk leikarans skoðað. Verkefnið skorar á leikarann að vinna  án leikstjórnar, leikmyndahönnuðar, búningahönnuðar osfr. Einu listamenn verkefnisins eru leikararnir.
 
Þátttakendur Dogma leikarans eru:
 
Arnbjörg Hlíf Valsdóttir
Davíð Guðbrandsson
Eggert Þorvaldsson
Friðrik Friðriksson
Hildigunnur Þráinsdóttir
Marta Nordal
Orri Huginn Ágústson
Sóley Elíasardóttir
Valur Freyr Einarsson
 
Sýningar Dogma á Sólarferð eru laugardagana 28.október, 4.nóvember og 11.nóvember kl.17 alla dagana á þriðju hæð Borgarleikhússins.