Fimmtudaginn 31. mars kl. 20:30 verður leikritið Djúp spor frumsýnt í Tjarnarbíói.

Selma og Alex hafa ekki hist í fimm ár. Fyrir tilviljun hittast þau aftur og þurfa þá að gera upp drauga fortíðar, ákveða hvort þau séu tilbúin til að axla ábyrgð á gjörðum sínum og fyrirgefa. Smám saman raðast saman sú atburðarrás sem varð til þess að þau slitu sambandi og er ástæða þess að þau eiga erfitt með að halda áfram með líf sitt. Er hægt að fyrirgefa þeim sem þú elskar glæp sem framinn er í gáleysi?

„Það er erfitt að hata einhvern þegar þú þarft mest á honum að halda.“

Djúp spor er nýtt heimildarverk um baráttuna við ástina, áföll og fyrirgefninguna. Verkið er unnið út frá viðtölum við einstaklinga sem þekkja afleiðingar ölvunaraksturs af eigin raun. Við horfum á báðar hliðar málsins, þar sem við kynnumst bæði gerandanum og aðstandanda fórnarlambsins.

Verkið er unnið og leikið af Jennýju Láru Arnórsdóttur og Jóel Sæmundssyni. Byggir það á raunverulegum atburðum, en Jenný Lára hefur áður unnið verkið Elska með þessari aðferð. Elska var unnið upp úr viðtölum varðandi hugmyndir fólks um ástina og sambönd. Það var sýnt víða á norðurlandi, í Reykjavík og á Act Alone leiklistarhátíðinni og hlaut góðar viðtökur.

Leikstjóri er Bjartmar Þórðarson en hann hefur komið víða við sem leikstjóri, dramatúrg og leikari, nú síðast með eigin verki, Gripahúsinu, í Tjarnarbíói og í 90(210) Garðabæ í Kassa Þjóðleikhússins. Jóel hefur aðallega verið að vinna við sjónvarpsþætti og kvikmyndir undanfarið en síðast þýddi hann og setti upp Glerlaufin sem sýnt var í Norðurpólnum á Seltjarnarnesi.

Aðstandendur:
Höfundar – Jenný Lára Arnórsdóttir og Jóel Sæmundsson
Leikstjóri – Bjartmar Þórðarson
Leikarar – Jenný Lára Arnórsdóttir og Jóel Sæmundsson
Búningar – Sandra Hrafnhildur Harðardóttir
Tónlist og hljóð – Mark Eldred
Ljós – Arnar Ingvarsson
Markaðssetning – Jenný Lára Arnórsdóttir, Katla Rut Pétursdóttir og Þórunn Guðlaugsdóttir