Leikfélag Keflavíkur frumsýndi leiksýninguna Þar sem Djöflaeyjan rís síðastliðið föstudagskvöld við mikið lof áhorfenda. 

Sýningin fjallar í stuttu máli um fjölskyldu Karólínu spákonu og líf þeirra í braggahverfinu í kjölfar seinni heimsstyrjaldar. Leikgerðin, sem samin er af Kjartani Ragnarssyni, er byggð á bókum Einars Kárasonar Þar sem Djöflaeyjan rís og Gulleyjan. 

Leikarahópurinn er fjölbreyttur og samanstendur af reyndum leikurum en jafnframt einstaklingum sem eru að þreyta frumraun sína á leiksviði. Það eru 14 einstaklingar sem leika í sýningunni. 

Árni Grétar Jóhannsson leikstýrði verkinu en hann hefur mikla reynslu í áhugaleikhúsum og leikstýrði m.a. sýningunni Rocky Horror hjá Leikfélagi Vestmannaeyja sem hlaut titilinn Athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins í fyrra. 

Sýningar fara fram í Frumleikhúsinu, Vesturbraut 17, í Reykjanesbæ. Miðasala fer fram á tix.is.