Leikfélag Selfoss frumsýnir Djöflaeyjuna í leikstjórn Rúnars Guðbrandssonar föstudaginn 6. mars.
Í þessari leikgerð er unnið með sögurnar Þar sem djöflaeyjan rís og Gulleyjan eftir Einar Kárason sem og leikgerðir Leikfélags Reykjavíkur og Þjóðleikhússins.
Djöflaeyjan er löngu orðin vel þekkt saga þar sem Reykjavík eftirstríðsáranna er í forgrunni þá sérstaklega mannlífið í braggahverfunum sem settu mikinn svip sinn á bæinn. Við kynnumst fjölskyldunni í Gamla húsinu og fáum innsýn á kómískan en jafnframt dramatískan hátt í þann veruleika sem fólk bjó við eftir stríð.
Þetta er í þriðja sinn sem Rúnar Guðbrandsson starfar með Leikfélagi Selfoss en hann leikstýrði Sólarferð eftir Guðmund Steinsson árið 2012 og Kirsuberjagarðinum eftir Chekov árið 2017. Hann hefur sett upp fjölda sýninga hjá sjálfstæðum atvinnuleikhúsum og áhugaleikfélögum um land allt. Rúnar er fagstjóri leiklistar við Kvikmyndaskóla Íslands.
Að sýningunni koma um það bil 50 manns þar af 24 leikarar.
Leikfélag Selfoss var stofnað árið 1958 og er því á 61. starfsári sínu. Djöflaeyjan er 85. verkefni sem það tekur sér fyrir hendur.
Miðasala er farin af stað í síma 482-2787, á netfangið midasala@leikfelagselfoss.is og undir flipanum -Bóka miða- á heimasíðu leikfelagselfoss.is
Næstu sýningar eru sunnudaginn 8. mars kl. 18, fimmtudaginn 12. mars kl. 20, föstudaginn 13. mars kl. 20 og sunnudaginn 15. mars kl. 18.
Uppýsingar um fleiri sýningar má svo finna á vef okkar og á Facebook.