Leikfélag Hörgdæla frumsýnir glænýtt íslenskt verk fimmtudagskvöldið 28. febrúar kl. 20.00 á Melum í Hörgárdal. Verkið er byggt á þjóðsögunni um Djáknann á Myrká og er eftir Jón Gunnar Th. sem jafnframt leikstýrir verkinu. Tónlistin er eftir Skúla Gautason og er samin sérstaklega fyrir þessa sýningu. Þarna er á ferðinni klassísk ástar- og draugasaga sem gerist í Hörgárdalnum. Djákninn átti í tygjum við stúlku eina er Guðrún hét og kom hún frá Bægisá. Djákninn hafði boðið Guðrúnu til jólagleði en…

17 leikarar auk hljóðfæraleikara eru á sviði í sýningunni en alls hafa yfir 40 manns komið að uppsetningunni. Leikarahópurinn samanstendur af góðri blöndu af vönum og óvönum, nýjum og gömlum andlitum og eru á öllum aldri.

Æfingar hafa staðið yfir síðan fyrir jól og nú er komið að því að áhorfendur fái að njóta afraksturs þeirra gríðarlegu vinnu sem leikhópurinn og aðstandendur hafa lagt á sig. Leikritið verður sýnt á föstudags- og laugardagskvöldum næstu vikurnar.