ImageEinleikurinn Dimmalimm verður sýndur í Möguleikhúsinu við Hlemm sunnudaginn 26. mars. Leikurinn verður sýndur tvívegis á sunnudag kl. 14. og 16. og verða þetta einu almennu sýningarnar í Reykjavík. Það er Kómedíuleikhúsið á Ísafirði sem setur Dimmalimm á svið og hafa sýningar verið síðustu vikur í leikskólum á höfuðborgarsvæðinu við góðar undirtektir.

Leikurinn er byggður á samnefndu ævintýri eftir Mugg og hefur notið gífurlegra vinsælda allt frá því ævintýrið kom fyrst út á bók árið 1942. Ævintýrið fjallar um prins sem verður fyrir því óláni að verða breytt í svan af norninni Bauju. Þegar Dimmalimm prinsessa kemur til sögunnar tekur sagan á sig ævintýralegar myndir enda getur allt gerst í ævintýrunum.

Höfundar leiksins eru þeir Elfar Logi Hannesson og Sigurþór A. Heimisson. Logi leikur og Sigurþór leikstýrir. Leikmynd er eftir Kristján Gunnarsson, Marsibil G. Kristjánsdóttur og Sigurþór. Brúðugerð annast þær mægður Alda Veiga Sigurðardóttir og Marsibil. Alda sér einnig um búninga. Jónas Tómasson, tónskáld, er höfundur lagsins Dimmalimm sem er samið við Dimmalimm ljóðið fræga. En lagið er sérstaklega samið fyrir þessa sýningu.

Miðaverð er 1.500.- kr. og miðapantanir eru í Möguleikhúsinu í síma: 5625060.
Nánari upplýsingar á heimasíðu Kómedíuleikhússins www.komedia.is