Hörður S. Dan. skellti sér nýskeð á sýningu í Jaðarleikhúsinu á verk sem heitir Dauði í kreppunni. Þetta er nýtt verk eftir hann Guðna Líndal Benediktsson sem einnig er leikstjóri verksins. Þetta hafði Hörður að segja um upplifunina:

Það sem blasti við mér, þegar ég kom inn í húsið, var dauður maður á miðju gólfinu. Leikhúsið bar þess sterk merki að vera herbergi sem lauslega hafði verið útbúið sem leikhús. Hálfvegis hafði verið neglt fyrir gluggana, svo dagsbirtan var samt áberandi í salnum. leikmyndinni virtist vera tjaslað saman úr nærliggjandi innanstokksmunum og dauðum manni á miðju sviðinu (sem gengið var yfir er farið var til sætis).

Og svo voru ljósin slökkt (fyrir utan dagsbirtuna, af augljósum ástæðum) og verð ég að viðurkenna að eftirvæntingin var svolítil hjá mér. Þá voru flúor ljósin aftur kveikt og verkið byrjaði. Þá varð ég fyrir vonbrigðum. Þvi eins skemmtileg hugmynd og þetta var þá var henni ekki fylgt eftir. Þegar leið á sýninguna fékk ég það á tilfinninguna að það hafi einfaldlega ekki verið lagt neitt púður í leikmyndina. Hálfkákið var ekki gert með ásetningi. Það er flest allt hægt í leikhúsi ef það er gert viljandi og fylgt eftir með sannfæringu.

Leikurinn (sem var í höndum Sigurðar Sveins Þorkelsonar, Viktors Aron Bragasonar og Geirs Konráðs Theodórssonar) var orkumikill en einsleitur (fyrir utan dauða manninn, hann var bara dauður). Það vantaði tengslin við orðin og fjölbreytni í túlkun. En kraftinn vantaði ekki og heyrði maður vel í leikurum.

Það er vandasamt að leikstýra sínum eigin verkum því þá þarf höfundurinn að slíta sig upp úr handritinu og horfa gagnrýninn á sinn eigin texta með augum leikstjórnanda. Það er alltaf hættan að höfundur sé fastur í sínum eigin hugmyndum og eigi erfitt með að aðlaga verkið að leikurum og aðstæðum. Ef til vill var það raunin í þetta skipti því leikstjórn var sundurleit og ómarkviss á köflum. En handritið sjálft hafði mikið gott í sér. Fullt af góðum húmor og skemmtilegum flækjum sem gaman var að. Örlaði pínkulítið á endurtekningum, en frumleikan vantaði samt sem áður ekki.

Til að draga þetta saman í nokkur orð, þá var þetta í heildina þrælskemmtileg hugmynd sem náði ekki að skila sér til fullnustu yfir til áhorfenda. Hefði ég gaman af því að sjá hvort leikfélagið gæti farið alla leið með næstu sýningu.

Hörður S. Dan.

{mos_fb_discuss:2}