Hvað gerist þegar saman koma 25 söngnemendur, 30 nemendur í hljóðfæraleik, Mozart og hópur atvinnufólks úr íslensku tónlistar- og leikhúslífi? Svar: Così fan tutte í Íslensku óperunni – ævintýraleg, uppátækjasöm og stórskemmtileg uppfærsla Óperustúdíós Íslensku óperunnar, í leikstjórn Ágústu Skúladóttur, á einu af meistaraverkum óperubókmenntanna, þar sem hlutirnir eru langt frá því að vera það sem þeir sýnast. Frumsýning er sunnudaginn 6. apríl kl. 20.

Così fan tutte eftir W.A. Mozart verður tekin fyrir að þessu sinni í Óperustúdíói Íslensku óperunnar, sem er vettvangur innan Íslensku óperunnar þar sem langt komnir og hæfileikaríkir tónlistarnemendur fá tækifæri til að spreyta sig á fjölum Óperunnar. Þannig skipta átta söngnemendur með sér aðalhlutverkum í óperunni, auk þess sem 17 manna kór og 30 hljóðfæranemendur skipa hljómsveitina. Listræn stjórn er hins vegar í höndum atvinnumanna og gefst nemendunum þannig kostur á að fá glögga innsýn í hið viðamikla verkefni sem full uppsetning óperu er.

Það er hin frumlega Ágústa Skúladóttir sem leikstýrir, en hún á að baki nokkrar af best heppnuðu leiksýningum hérlendis á síðustu árum, verðlaunabarnasýninguna Klaufa og kóngsdætur og Eldhús eftir máli, sem er ein best sótta leiksýning undangenginna ára hér á landi. Búast má við hverju sem er þegar Ágústa er annars vegar, allt frá dramatík af dekkstu gerð til óborganlegs húmors, og þannig er einnig haldið á spöðunum í þessari fyrstu óperuuppfærslu hennar, þar sem viðfangsefnið er hin leikandi létta og undurfagra Così fan tutte Mozarts.

Í óperunni segir frá vélabrögðum Don Alfonsos, sem fær þá hugdettu að láta reyna á ást og trygglyndi vina sinna. Í þessum hildarleik koma upp margvíslegar aðstæður, bæði sprenghlægilegar og sárar og erfiðar. Óperan veltir um leið upp spurningum um mannlegt eðli, um grimmd, ást og loforð – og hvernig mannskepnan bregst við þegar á hana er reynt.

Það er Guðrún Öyahals sem hannar leikmynd og Katrín Þorvaldsdóttir sem hannar búninga, þar sem leikið er með möguleika formsins á ótal vegu. Lýsingu hannar Páll Ragnarsson, nýráðinn ljósameistari Íslensku óperunnar. Hljómsveitarstjóri og umsjónarmaður Óperustúdíósins er sem fyrr Daníel Bjarnason. Glitnir er dyggur bakhjarl Óperustúdíósins.

Aðrar sýningar eru 9., 11. og 13. apríl og verða aðeins þessar fjórar sýningar. Miðaverði er stillt í hóf og kostar miðinn aðeins 1.000 kr.
 

{mos_fb_discuss:2}