Föstudaginn 11. apríl frumsýnir Common Nonsense, í samstarfi við Borgarleikhúsið, Dagbók Jazzsöngvarans á Nýja sviðinu. Hér er á ferðinni nýtt, íslenskt verk úr smiðju þeirra sem færðu okkur Tengdó, Grímusýningu ársins 2012. Valur Freyr Einarsson er höfundur verksins en leikstjórn er í höndum Jóns Páls Eyjólfssonar.

Ilmur Stefánsdóttir hannar leikmynd og búninga og Björn Bergsteinn Guðmundsson lýsingu. Davíð Þór Jónsson er höfundur tónlistar. Leikarar sýningarinnar eru þau Valur Freyr Einarsson, Kristbjörg Kjeld og Grettir Valsson.

Ólafur Haraldsson kerfisfræðingur fær óvænt símtal frá náinni vinkonu föður hans sem flytur honum váleg tíðindi. Það opnast fyrir flóðgátt innra með honum, öryggislokinn brennur yfir og hinn hægláti framkvæmdastjóri missir tökin. Í kjölfarið birtist heimilishjálpin Stella óumbeðin inn á gafli hjá honum með sannleikann í farteskinu. Hver var þessi jazzsöngvari? Nú neyðist Ólafur til að horfast í augu við það sem hann óttast mest.

Höfundur: Valur Freyr Einarsson | Leikstjóri: Jón Páll Eyjólfsson | Leikmynd og búningar: Ilmur Stefánsdóttir | Tónlist og hljóðmynd: Davíð Þór Jónsson | Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson | Leikarar: Valur Freyr Einarsson, Kristbjörg Kjeld og Grettir Valsson

Úr dómum um Tengdó, Grímusýningu ársins 2012:
„Sýning sem þið megið alls ekki missa af, því að hún varðar okkur öll, bæði sem Íslendinga og sem manneskjur“ – JVJ,DV

„Unnið af ást, virðingu og umhyggju“ – EB, Fbl