Leikfélag Hörgdæla hefur ákveðið að setja upp leikritið Bróður minn Ljónshjarta í leikstjórn Kolbrúnar Lilju Guðnadóttur og stefnt er að því að frumsýna í mars. Leikfélagið ætlar að vera með vinnustofur fyrir Bróður minn Ljónshjarta. Vinnustofurnar munu fara fram fimmtudaginn 30. nóvember frá kl. 20:00 fyrir allan aldur og síðan sunnudaginn 3. desember frá 15:00-18:00 sem eru ætlaðar eru fyrir 10-16 ára. Skráning í vinnustofurnar fara fram á heimasíðu leikfélagsins, leikhorg.is.
Það hefur lengi verið áhugi fyrir því innan félagsins að setja þetta verk upp og nú er loksins komið að því. Bróðir minn Ljónshjarta er eftir Astrid Lindgren. Astrid er einn þekktasti barnabókahöfund heims en hennar þekktustu verk eru bækurnar um Línu langsokk, Emil í Kattholti, Ronju ræningjadóttur og Kalla á þakinu. Sagan segir frá bræðrunum Karli og Jónatan sem hittast aftur, eftir stutta jarðneska dvöl, í landinu Nangijala, þar sem sögur eru sagðar við varðeldana. Lífið í Kirsuberjadal mótast af grimma Riddaranum Þengli, sem ásamt eldspúandi drekanum Kötlu ræður þar ríkjum og valda þau skelfingu hvar sem þau koma. Karl og Jónatan, sem kallaðir eru bræðurnir Ljónshjarta, ákveða að berjast við hinn grimma Þengil og svartklæddu Riddarana hans.
Leikfélag Hörgdæla sýnir ávallt sínar sýningar í félagsheimilinu Melum í Hörgársveit. Í vetur verður engin breyting á því.
„Við erum alveg ótrúlega spennt fyrir þessari uppfærslu og mikill hugur í fólki. Síðustu tvö ár eftir Covid höfum við sett upp tvær frábærar sýningar, Í fylgd með fullorðnum og Stelpuhelgi og viðtökurnar við þeim voru hreint út sagt frábærar. Vonandi höldum við áfram á þeim nótum með þessari sýningu.“ segir Fanney Valsdóttir formaður leikfélagsins.
Kolbrún Lilja Guðnadóttir mun leikstýra verkinu en hún hefur mikla reynslu úr leiklistarheiminum og leikstýrði Fólkinu í blokkinni hjá Freyvangsleikhúsinu síðasta vetur. Þetta er í fyrsta skipti sem hún leikstýrir hjá Leikfélagi Hörgdæla en þó ekki í fyrsta skipti sem hún kemur á Mela þar sem hún lék í Gauragangi árið 2019. „Þetta er óneitanlega mikil áskorun, ég hef alveg síðan ég fór fyrst í leikhús á Bróðir minn Ljónshjarta árið 1998 verið ótrúlega hrifin af þessu verki. Ég lék í því árið 2014 og er nú að leikstýra því og spenningurinn er mikill“ segir leikstjórinn Kolbrún Lilja.