Á menningarnótt sl. stóð Leikminjasafn Íslands fyrir opinni brúðulistahátíð og sýningu á íslenskum leikbrúðum í Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg.  Viðburðurinn vakti mikla athygli og komu um 2000 manns á sýninguna þennan dag.  Nú verður sýningin opnuð að nýju þrjá næstu laugardaga, 17. nóv., 24. nóv. og 1. des.  Eins og á menningarnótt verða lifandi leikbrúðusýningar á staðnum, jafnframt því sem gestir geta skoðað sýninguna sjálfa.  Meginuppstaða hennar eru brúður og önnur listaverk Jóns E. Guðmundssonar, frumherja í íslensku brúðuleikhúsi, en einnig eru sýnishorn af leikbrúðum yngri brúðulistamanna.

Sýningin verður opin frá kl. 13.00 – 17.00.  Tvær leiksýningar verða nú á laugardag, 17. nóv. Leikbrúðuland sýnir Selinn Snorra kl. 14.00 og Gangandi götuleikhús Petruschka og óheppnu götulistamennirnir kl. 16.00 (frumsýning á Íslandi).  Laugardaginn 24. nóv. sýnir brúðuleikhúsið Tíu fingur Mjallhvíti kl. 14.00 og Leikbrúðuland Vináttu kl. 16.00.  Laugardaginn 1. des sýnir Brúðuleikhús Helgu Steffensen Núma á ferð og flugi kl. 14.00 og Sögusvuntan Súpan hennar Grýlu kl. 16.00.  Aðgangur er ókeypis alla dagana.

Það er Landsbankinn sem styrkir þennan menningarviðburð.

 {mos_fb_discuss:3}