Heyrst hefur að tveir brennuvargar hafi hreiðrað um sig á loftinu hjá herra Biedermann, í gamla Samkomuhúsinu á Húsavík. Hvort rétt reynist kemur í ljós kl. 16.00 laugardaginn 7. febrúar þegar Leikfélag Húsavíkur frumsýnir Brennuvargana eftir Max Frisch í leikstjórn Ármanns Guðmundssonar. Bjarni Jónsson þýddi verkið.

Bissnessmaðurinn Biedermann og kona hans búa í bæ þar sem mikið hefur verið um húsbruna. Dag einn bankar upp á hjá honum uppgjafa glímukappi, Schmitz að nafni og áður en hann veit af er Biedermann búinn að bjóða honum að hreiðra um sig upp á lofti hjá sér. Fyrr en varir eru gestirnir orðnir tveir, loftið fullt af grunsamlegum tunnum og allt bendir til að þarna séu brennuvargarnir á ferð. Og hvað er þá hægt að taka til bragðs til að bjarga eigin skinni? Jú, halda þeim veislu…

Næstu sýningar verða þriðjudaginn 10. febrúar, föstudag 13. febrúar og laugardag 14. febrúar.

Nánari upplýsingar á www.leikfelagid.is