Framleiðsla og æfingar á sýningunni Bræður – fjölskyldusaga eru í fullum gangi í Borgarleikhúsinu um þessar mundir. Verkið er samstarfsverkefni Borgarleikhússins, Vesturports, borgarleikhússins í Malmö og Teater Får302 í Kaupmannahöfn. Íslendingum gefst kostur á að fylgja þessu metnaðarfulla verkefni úr hlaði í vor því ferðalag norrænu uppfærslu verksins hefst á tveimur sýningum á Listahátíð þann 1. og 2. júní, í flutningi danskra, sænskra og íslenskra leikara. Sýningin verður svo frumsýnd á íslensku á næsta leikári í Borgarleikhúsinu með íslensku leikaraliði.

Höfundar verksins eru hinn virti bandaríski handritahöfundur Richard Lagravenese og Gísli Örn Garðarsson sem jafnframt leikstýrir verkinu. Richard Lagravenese er þekktur fyrir kvikmyndahandrit sín, meðal annars Fisher King (sem hann var tilnefndur til Óskarsverðlauna fyrir), The Horse Whisperer, Bridges of Madison County og Water for Elephants. Vesturport hlaut á síðasta ári hin eftirsóttu Evrópsku leiklistarverðlaun og síðasta leikstjórnarverk Gísla Arnar, Hrói höttur, sem sýnt var í Royal Shakespeare Theatre í Stratford hlaut einróma lof breskra gagnrýnenda. Leikmyndahönnuður sýningarinnar er Börkur Jónsson og tónlistina semja hinir þekktu dönsku tónlistarmenn Cæcilie Norby og Lars Danielson og er þetta í fyrsta sinn sem þau semja tónlist fyrir leikhús. Einn ástsælasti leikari Dana, Waage Sandø (sem margir kannast eflaust við úr dönsku þáttaröðunum Rejseholdet og Krøniken er í burðarhlutverki ásamt öðrum þekktum leikurum á borð við Fredrik Gunnarsson (úr sænsku sjónvarpsþáttaröðinni Wallander), Ólafi Darra Ólafssyni, Víkingi Kristjánssyni og Jóhönnu Vigdísi Arnardóttur, en alls taka um 12 leikarar frá Svíðþjóð, Danmörku og Íslandi þátt í sýningunni.

Bræður – fjölskyldusaga er gríðarlega viðamikið verkefni sem unnið er í samstarfi við Vesturport, borgarleikhúsið í Malmö, Teater Får302 í Kaupmannahöfn. Ferðalag sýningarinnar hefst með tveimur sýningum á Listahátíð í Reykjavík í júní 2012 og svo verður haldið til síðan í Svíþjóð og Danmörku þar sem sýnt verður um sumarið með þáttöku listamanna frá Íslandi, Danmörku og Svíþjóð. Sýningin verður svo loks frumsýnd á íslensku á haustmánuðum 2012 í Borgarleikhúsinu með íslenskum leikurum í öllum hlutverkum. Verkið verður einnig sýnt í Washington á næsta ári. Verkið er styrkt af menningarsjóði Norðurlandaráðs auk fleiri sjóða innan Evrópusambandsins og Norðurlandanna. Enskur titill versksins er Bastard – a family chronicle.

Aðstandendur Höfundur: Richard Lagravenese (US) og Gísli Örn Garðarsson (IS) | Leikstjórn: Gísli Örn Garðarsson (IS)| Leikmynd: Börkur Jónsson (IS) | Búningar: Maria Gyllenhoff (DK)| Lýsing: Carina Persson (SE/DK) | Tónlist: Cæcilie Norby og Lars Danielson | Leikarar: Waage Sandø (DK), Charlotte E. Munksgaard (DK), Birgitte Prins (DK), Pauli Ryberg (DK), Ólafur Darri Ólafsson (IS), Víkingur Kristjánsson (IS), Jóhanna Vigdís Arnardóttir (IS), Jóhannes Níels Sigurðsson (IS), Ellen Frosti (SE), Fredrik Gunnarson (SE), Håkan Paaske (SE), Pia Örjansdotter (SE)

{mos_fb_discuss:2}